fimmtudagur, apríl 03, 2003

Schallplatten

Í gær fór ég í plötubúð. Klæddur íþróttagalla og skokkskóm. Við skulum segja að ég hafi átt að vera annars staðar.

Í plötubúðinni datt mér í hug að festa kaup á Niflungahringnum á DVD (Metropolitan-Levine-uppfærslunni) á rúmar 20.000 krónur en hætti við á síðustu stundu. Hvers vegna veit ég ekki. (Hver er annars besta myndbandsuppfærslan á Hringnum? Það eru víst uppi deildar meiningar um Levine.) Lét tvo geisladiska nægja: níundu Beethoven með Karajan '63 (Berliner Philharmoniker, Wiener Singverein) og sellókonsertadisk með Daniel Barenboim og Jacqueline du Pré.

Níundu Beethoven átti ég fyrir með Karl Böhm '80 (Wiener Philharmoniker, Konzertvereinigung Wiener Staatsopernchor) en hann er einmitt þekktur fyrir að taka hana frekar hægt. Til samanburðar má nefna að sinfónían tekur 79'02'' hjá Böhm en 66'58'' hjá Karajan. Tólf mínútur, sem er slatti. Karajan hefur þetta frekar snaggaralegt, kannski um of að mínu mati, enda búinn að venjast Böhm.

Tónmeistarar Karajans stilltu hljóðnemunum greinilega upp fjær kórnum en gert er hjá Böhm og verður hann því ekki jafn-intens og vera ber. Þá voru þeir með míkrófóninn uppi í trompetleikurunum sem er ekki til bóta. Gundula Janowitz er sópran hjá Karajan en Jessye Norman hjá Böhm, en Gundula er einmitt Sópransöngkonan. Söngstíll Jessye er þó lágstemmdari sem mér finnst henta betur hér en hin (samt sem áður) undurfagra há-pitchaða rödd Gundulu.

Walter Berry er barítón á báðum upptökum og skilar sínu nákvæmlega eins í hvoru tveggja tilfellinu. Þegar kemur að tenórnum fara mál þó að skýrast. Plácido Domingo syngur á Böhm en einhver Waldemar Kmentt hjá Karajan. Kmentt þessi er vægast sagt hörmulegur söngvari, með lélega framsögn og ömurlegar söngáherslur. Domingo tekur hann ósmurt.

Mér líkar eiginlega betur við alla hægðina í Böhm því þá næst langmest tilfinning út úr þessu. Mér finnst of mikið flaustur á Karajan. Síðan er Böhm-upptakan gerð im Großen Musikvereinssaal í Vín en Karajan í Jesus-Christus-Kirche í Berlín. Hljómurinn í Musikvereinssaal er miklu þéttari og fyllri en kirkjuhljómurinn, sem virkar frekar flatur.

Ég verð því að dæma Böhm betri en Karajan. Næst er það Claudio Abbado sem verður prófaður, þ.e.a.s. ef ég finn hann í hinu gríðarlega úrvali klassískra diska á klakanum.

Ég átti engan disk fyrir með Jacqueline du Pré og Barenboim en á þessum flytja þau sellókonserta eftir Haydn og Boccherini. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef aldrei heyrt svona ótrúlega skitsófrenískan sellóleik á ævi minni. Hvað var að þessari konu? Þetta er svo óheft, brjálað og tilfinningaþrungið. Öðruvísi. Bravó fyrir Jacqueline du Pré og frekari kynnum okkar.