miðvikudagur, desember 31, 2003

Nei, nei, nei

Ég er reiður. Hvers vegna er ég reiður? Ég er ósáttur við þá forgangsröðun sem ríkir í heiminum. Ég er ósáttur við það að til Mars séu sendir flokkar af málmdrasli fyrir 820 milljónir (820 milljónir!!!!!!!) dollara sem bila síðan og eiga hvort eð er ekki að gera annað en taka myndir af tilgangslausu landslagi á tilgangslausum hnetti. Og öllum finnst það allt í lagi.

Sá mæti maður (og málfræðingur) David Crystal hefur bent á að það myndi kosta um 600 milljónir dollara að skrásetja myndarlega flest þeirra 3.000 mála sem eru í útrýmingarhættu á hnettinum (mennta færa málfræðinga, semja málfræði og orðabækur, taka upp samfellt mál, semja málsögu og kennsluefni). Á um tveggja vikna fresti deyr eitt mál út svo það er ekki seinna vænna að hefja verkið.

Hvenær náðu stjörnufræðinördarnir slíkum undirtökum í stjórnkerfi heimsins að þeir fá frítt spil til að spandera grilljörðum skattfjár í vitleysu? Lítum okkur nær og afgreiðum húmaníska faktorinn fyrst. Menningarverðmæti liggja undir skemmdum!

miðvikudagur, desember 24, 2003

Plan

Það sem ég ætla að gera fyrir stúdentspróf í enskum stíl: Kaupa mér The Oxford English Dictionary (viðamesta orðabók sem til er yfir enska tungu, 20 bindi (21.730 bls.) sem saman vega 62,6 kg) og heimta að skólinn borgi flutning á henni í prófstofu með vísan í setninguna „Í enskum stíl má nota ensk-enska orðabók“ en halda annars fram að mér hafi verið gróflega mismunað. Sem er auðvitað réttmætt því það er ekkert tekið fram hvaða orðabók má nota og það er ekkert skólans að svínbeygja nemendur til að einskorða sig við einhverjar heftandi og ekki-tæmandi einsbindisorðabækur og þeir mega ekki verða til þess að ég verði orðabókarfatlaður í prófinu. Nei. Uss. I know my rights.

Á einhver hundraðþúsundkall til að gefa mér til að kaupa The Oxford English Dictionary?

föstudagur, desember 19, 2003

Rauði herinn

Af hverju hefur kór Rauða hersins þau áhrif að mig langar að gerast kommúnisti, setja upp loðhött gerskan og fara út á götu að veifa rauðum fána?
Samtal í BT í dag

Kona (bendir á DVD-diskinn Austin Powers: The Spy Who Shagged Me): Bíddu, þetta er fyrsta myndin er það ekki?

BT-starfsmaður: Ha, jú. Þetta er hún.

Kona (handfjatlar DVD-diskinn): Hvað hét þarna önnur myndin aftur?

BT-starfsmaður: Hún, hérna ...

Kona: Gold ...

BT-starfsmaður: Gold ...

Kona: Goldfinger!!

BT-starfsmaður (þurrlega og á mjög matter-of-fact hátt): Já, einmitt, Goldfinger.

Bæði skilja, að því er virðist ánægð með tjáskiptin.

URRRRRRRRRRRRRRRRRRG!

þriðjudagur, desember 16, 2003

Ó, nördgasm, nördgasm

Ég er að læra fyrir jólapróf í hebresku. Ó, já. Elóhím, elóhím.

Gleði, gleði, gleði, gleði líf mitt er, sem Adonai gefið hefur mér.

mánudagur, desember 08, 2003

Annað Helgablogg

Helgi Ingólfsson sat yfir í þýskuprófi áðan þar sem ég var staddur. Þegar liðið var á prófið tók hann upp minnisblokk og hripaði eitthvað niður. Kannski var það upphafið að nýrri skáldsögu, sem kannski hljóðaði einhvern veginn svona:

„Sigurgísli Hermóðsson handavinnukennari var staddur í prófyfirsetu þegar mannræningjarnir komu og tóku hann.“