miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Hvar er Sigurður A. Magnússon þegar maður þarf á honum að halda?

Lesstofan á efstu hæð Odda er mjög óformleg. Þar talar fólk saman um allt milli himins og jarðar, allt frá tjúttinu í bænum til farsímastillinga. Mjög hátt. Þökk sé doktor Magga Jóns og opnum rýmum hans er hér einnig stanslaus hávaði að neðan.

Á móti mér situr strákur sem talaði hið hljómfegursta mál í farsímann sinn áðan. „Þetta er nýgríska,*“ hugsaði ég í því er ég fór á klósettið.

Þangað tók ég með mér framboðsbækling frá lista sem ég hef ekki kynnt mér áður. Ég var sammála hverju orði sem þar stóð og mun kjósa listann.

Þegar ég kom til baka leit ég á tölvuskjáinn hjá farsímagaurnum. Jú, mikið rétt, hann var að lesa gríska bloggsíðu. Hvað myndi hann gera ef ég arkaði að honum og færi að syngja gríska þjóðsönginn fyrir hann?

Senjórís' apó tín kopsí,
tú spaþjú tín trómerí!

Senjórís' apó tín opsí,
pú me vja metræ tín jí!

Ap' ta kókala vjalmení,
ton Ellínon ta jera.

Ke san próta, anðrjómení,
hjer ó hjer elefþerja!


Ég er á þeirri skoðun að nýgríska sé hljómfegursta mál í heimi.

[* Ég tilheyri svo lærðum kreðsum að ég verð að gera greinarmun á forngrísku, koine og nýgrísku þegar ég tala um þetta mál. Það dugir ekki að segja bara 'gríska'. Ég bið grunlausa lesendur afsökunar á óhagræði sem af þessu kann að hljótast.]