fimmtudagur, mars 31, 2005

Rétt' upp hönd sem ætlar að hlusta á götuvígabardagann í ríkisfréttunum frá og með kl. 9 á morgun! Ég vil heyra skothvelli úr framhlaðningum og mannfall í bakgrunninum.
Kæra Yaya,

ég get ekki horft á þáttinn þinn lengur því ég ætla að ganga í sirkus. Bless.
Turdsje kónú sjúrmú súnús?

Á tyrknesku þýðir yaya 'fótgangandi'. Á katalónsku þýðir yaya 'amma'.

Ein af keppendunum í America's Next Top Model heitir Yaya.

miðvikudagur, mars 30, 2005

Með tiltölulega auðveldum hætti má breyta karamellu í kanamellu.

mánudagur, mars 28, 2005

Síðan ég keppti í Gettu betur er amma orðin fanatískur áhugamaður um þann leik og skrifar niður úrslit úr hverri keppni, sér til skemmtunar og samanburðar. Amma segir samt ekki stig heldur atkvæði. Áðan var hún að tala um úrslitin og sagði við mig: „Ja, það munaði bara þremur atkvæðum!“ Amma er skemmtileg.
Nú erum við að tala samanÉg meina, víkingakona með sverð og Dannebrog. Mig langar að gráta af gleði. Dýrð sé þér, Danmörk.
Lament

Liðin er sú tíð að botninn í páskaegginu sé þykkur sem dórískt súluhöfuð. Nú má hann einungis samlíkjast eggsins skurn, þykir mér.

sunnudagur, mars 27, 2005

The Office hvað?

Ég sé að Sjónvarpið ætlar að fara að sýna Little Britain. Ég hef séð þessa þætti á BBC og get vottað að hér fara einhverjir fyndnustu brit-grínþættir sem gerðir hafa verið. Ég hvet alla til að horfa á.
Halleluja, jeg er blevet dansker

Jeg har besluttet at blogge udelukkende på dansk herefter. Det er mig ligegyldigt, om mit dansk er slemt; jeg, højt hævet over almindelige dødeliges grammatiske love, trænger simpelthen til at ytre mig på tidligere nævnt sprog da mange dage og mange år nu er gået siden jeg hver dag kunne aflevere skønne afhandlinger og sjove opgaver om socialrealistiske trængsler hos følelsesmæssigt skadede unge (jf. Leif Panduro og hver eneste islandsk tekstbog til dansk som er blevet udgivet fra koloniseringen).

Ja, kære læsere, nu skal der blogges i kancellistil som aldrig før, og det på stilens modersmål! På denne blog skal alt ånde fred og idyl som det skønt gør på de jyske heder, hvorfra alt godt stammer.

Gud bevare Danmark – og mig.

laugardagur, mars 26, 2005

Þetta kom miklu róti á huga minn og ég stóð skilningsvana frammi fyrir þeim hyldjúpa efa sem leikurinn hafði skapað í huga mínum við dagleg netfíflalæti. Er heimurinn eins og við skynjum hann? Hver eru hinstu rök mín?

Draga á þversummu tveggja stafa tölunnar x (frá 10-99) frá x. Miðað við þessi skilyrði getur útkoman aðeins verið tölurnar 9, 18, 21, 27, 36, 45, 54, 55, 63, 72, 81 og 91. Engar aðrar tölur koma til greina. Með því að rótera táknum milli skipta er dregin dul á að sama táknið er ævinlega haft við þessar tölur.

Enn og aftur hefur vísindahyggjan sigrað mystisismann. Múaha.

Guð er án efa næstur á hit-lista internetleikjaframleiðenda.
Haldið þið ekki að ég hafi séð Bobby og Miyoko í spássértúr við Valsheimilið áðan? Hann útskeif himnalengja í flaksandi gallaskyrtu og með derhúfu, hún pínulítil og skælbrosandi í ökklasíðri ömmukápu með buddu. Þetta var óborganlegt.

föstudagur, mars 25, 2005

Rosahress gamlingjasveit og sígaunahelvítin á Vestfjörðum

„Hin lífsseiga hljómsveit Stuðmenn lék fyrir fjölmenni á tónleikum í Royal Albert Hall í gærkvöld. Tónleikagestir voru að 9/10 Íslendingar og skemmtu sér vel.“

En afkáralega sorgleg og dapurleg hlutföll.

Frá síðustu færslu hefir það gjörst að mig langar að læra kontrapunkt. Ég nenni þó ekki að læra nótnaskrift eða tónvísindi almennt séð. Svona ástand hefði Haukur Morthens kallað Díl-Emmu á Rauðshóli.
Bragfræðilegar endurbætur í samræmi við nýja málvenju

„Upp, upp, mín sál og allt mitt geð,
upp mitt hjarta og rómur með,
hugur og tunga hjálpi till.
Herrans pínu ég minnast vill.“

Annars er það helst í fréttum að Handel rúlar í frönskum forleikjum. Bach sökkar þar, kjörfurstarassasleikjan atarna.

Sem og: Robertus Jacobus Piscator Islandus factus est, unde gaudet mecum Hyerusalem.

fimmtudagur, mars 24, 2005

Landið og þjóðin, eða ætti ég kannski að segja þjóðin og landið?

Róbert Jakob Fiskur! Stíg heill á storð, yður heilsa frændur og vinir!

miðvikudagur, mars 23, 2005

Peningamál mín

Ég álpaðist inn á „ódýra“ tónlistar- og myndbandamarkaðinn í Perlunni í gær. Álpaðist, segi ég. Þegar yfir lauk hafði ég eytt 7.000 krónum í eitthvað sem ég veit ekki hvað er, og meðal annars diskinn Best of Greece 2001, sem inniheldur það allraallrabesta af grísku eþnópoppsenunni það árið.

Já, ég veit ekkert heldur hvernig mér datt í hug að kaupa það!

Annars er ég glaður í dag.

þriðjudagur, mars 22, 2005

Allt ber að sama brunni

Merkilegt alveg hvað allir uppveðrast eitthvað í návist hennar.
Ævintýri í tölvustofunni

Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá situr við hlið mér kona af útlensku bergi brotin (suðurevrópsku líklega) sem er að pikka á lyklaborð yfir plastþynnu. Já, hún setti plastþynnu yfir lyklaborðið. Núna ætla ég að kýla hana kalda. Sjitt, kannski kann hún íslensku. Nei, nei, erlenda kona, ég (núna leit hún á mig) er ekki að hæðast að þér. Pikkaðu bara róleg á plastþynnuna þína.

mánudagur, mars 21, 2005

Hvað á þetta eiginlega að þýða? Hvernig eiga 13 ára börn að lesa Passíusálmana? Hvernig ætla þau að hafa yfir Um útleiðslu Kristí úr þinghúsinu?

Með blóðskuld og bölvan stranga,
beiskum reyrð kvalahnút
áttum við greitt að ganga
frá guðs náð rekin út,
hrakin í heljar sút,
íklædd forsmánar flíkum,
fráskúfuð drottni ríkum,
nakin og niðurlút.


Ég fæ kjánahroll þegar ég ímynda mér roggna stelpu í bleikum jogginggalla með tíkarspena sem heldur að hún sé miðpunktur heimsins við að fá að lesa þetta. Hún hefur engar forsendur til að skilja hvað hún er að segja!

Engum er greiði gerður með svona fíflalátum, og allra síst Passíusálmunum.

föstudagur, mars 18, 2005

Þessi bók er komin í roknavanskil. Ekki vildi ég þó vera bókavörðurinn sem settur væri í símann að harka hana til baka frá lánþeganum.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Pétursson Sigurður fór að tala um stóuspekina í dag. Sagði mikið. Skrifaði margt upp á töfluna. Í miðjum klíðum varð huga mínum snúið til Blómavals í blárri fortíð þegar prímatarnir voru hafðir þar í búri. Eitt sinn hélt ég þar í hönd móður minnar og virti fyrir mér lítinn apakött sem var ósáttur við bananaleysi sitt þegar maður nokkur æpti:

Gaman er að sjá hlutina í nýstárlegum leifturblossa ferskleikans. Það gerist sjaldnar eftir því sem maður eldist, því miður.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Menn gera áætlanir til þess að fylgja þeim ekki eða Harmsaga ævi minnar

Í gær ákvað ég að dagurinn í dag yrði til stórræðanna. Ég gerði nákvæma og fagra áætlun um hvernig honum skyldi varið í akademísk afrek og ætlaði að fara eftir henni í hvívetna en typta mig gaddasvipu ella. Áætlunin leit svona út:

8:00 – taka til á skrifborðinu

9:15 – keyra í skólann

9:40 – mæta í beygingar- og orðmyndunarfræði

11:15 – fara á Þjóðarbókhlöðuna og lesa fyrsta fjórðung úr einni námsbók

12:00 – hádegismatur

13:00 – lesa annan fjórðung

14:40 – mæta í heimspekileg forspjallsvísindi

16:00 – kenna aukatíma

17:30 – lesa þriðja fjórðung

19:00 – borða

19:30 – klára námsbókina

21:00 – fara í bíó

Í dag vaknaði ég kl. 9:28 og mér varð svo mikið um að ég var hvorki heill né hálfur maður fram til hádegis vegna vonbrigða og huggaði mig með því að sitja í eldhúsinu og lesa dagblöð. Mér fannst ég bregðast sjálfum mér svo mikið með því að riðla planinu að ég hafði ekki geð í mér til að fylgja því frekar.

Í dag hef ég því ekkert gert af því sem á planinu stendur nema það er útlit fyrir að síðasti liðurinn komist í framkvæmd nú á eftir. Það verður gaman.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Helvítis staglið

„Bjarni Thorarensen var af svo miklum höfðingjaættum að manni dettur í hug að hann hafi ekki alist upp með sama hætti við alþýðlega kveðskaparhefð eins og mörg önnur skáld. Hann var snemma barinn til bókar og farið að velta honum upp úr latínukjaftæði, honum var frekar haldið við það en klámvísur úr hinu nánasta umhverfi.“

- Hreinsson Viðar kennari í tíma í morgun.

mánudagur, mars 14, 2005

Ég hef uppgötvað mér til mikillar ánægju að ég er 17 ára gamall.
Ég er Stephan G., bimbi rimbi rimm bamm

Á ég að fara að sofa eða halda tilgangslausu netrápi áfram?

Tilgangslausu? Í andvöku minni hef ég þó komist að því að 77% grunnskælinga tóku samræmt próf í dönsku árið 2004. Men det er sgu alt for lidt. Síðan þetta varð valfrjálst er allt á leið til helvítis.

Ég ætla mér að lesa ævisögu Jónasar Hallgrímssonar á næstu dögum. Hana ætla ég að lesa plaseraða á þessu dótaríi, en þetta er einhver sú alsniðugasta græja sem mér hefur verið gefin. Það er ekkert flóknara en það. Takk, matmúsella.

Já, góðir lesendur, þetta er bókasólstóll handa ritum að teyga í sig lærdómsskin augna minna. Gegnt bláum efnisbút skorðar hann af bækur allra stærða og gerða og heldur opnum á hvaða stað sem maður kýs, jafnt blaðsíðu 7 sem 432, en bókunum má halla á þrjá mismunandi vegu, allt eftir búk- og höfuðstærð lesarans. Bækur þessar geta verið svellþykkar bókmenntasögur vestrænna stórþjóða eða lítilsigld smárit amerískra sóðaskálda.

Með þessu móti getur maður lagst aftur í stólinn með krosslagða handleggi og lesið. Og borðað popp með bráðnu sméri í leiðinni (það er gott) án þess að smúttsjúga blaðsíðurnar. Síðan er þetta kjörið til að halda uppi pappírum við tölvuskjá meðan innsláttur fer fram.

Ja, hvað verður fundið upp næst? Vélheilar sem yrkja undir fornyrðislagi?

laugardagur, mars 12, 2005

Í gær var ég Matthías Johannessen að utan sem innan og borgin hló við mér.

föstudagur, mars 11, 2005

Jeg vil snakke dansk! Nu!

Hólí sjætbúrger. Núna er mig farið að langa svo mikið að tala dönsku við einhvern at ord ikke kan udsige det. Getur maður eignast danska MSN-lyklaborðsvini á einhverri heimasíðu?
Piparmyntusúkkulaði

Ég á mér ofureinfalda reglu: Ef mig langar að kommenta á bloggsíðum, þá geri ég það undir nafni. Ef ég treysti mér ekki til að segja það sem ég vil segja undir nafni, þá sleppi ég því að kommenta.

Er þetta flókið?

miðvikudagur, mars 09, 2005

Þið getið dánlódað forminu hérna

Ég er að hugsa um að stofna til undirskriftasöfnunar gegn stokkakerfinu. Ég vil mitt akademíska korter aftur.

Nú þarf ég að vita tvennt:

1) Er einhver sammála mér um ömurleika stokkakerfisins?
2) Er einhver sem myndi nenna að standa með mér í að safna undirskriftum?

Ekki vera hrædd við að kommenta þó þið þekkið mig ekki; ég vil sjá hversu almennur þessi stokkakerfispirringur er.

þriðjudagur, mars 08, 2005

Brandenbyrgskir konzertar og morfólógískar stúderingar í Kristí nafni amen

Páku hátt skal hljóma slag,
horska iðka eg list í dag,
sembalsnóta er slegin þrátt,
sælu vísdóms finn eg brátt!

mánudagur, mars 07, 2005

Indeed

Í dag ákvað ég að vera snobbari og keypti mér því sunnudagsblað The Guardian og vikublaðið Spectator. Mér skilst að Spectator sé skrifað af sjálfselskum og hortugum menningarvitum sem kalla ekki allt ömmu sína. Ég vona að Guardian sé svipaður líka. Pældi reyndar svolítið í Independent áður en ég keypti Guardian.

laugardagur, mars 05, 2005

Ég fékk mikla og knýjandi löngun til að skrifa eitthvað langt mál á dönsku áðan.
Demit

Bobby Fischer kemur aldrei til Íslands úr þessu. Og ég sem ætlaði að taka á móti honum.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Það er gaman í háskóla

Áðan komu Atli Freyr Steinþórsson, stud. med., læknanemi; og Stígur Helgason, cand. paed., uppeldisfræðingur, í heimsókn í tíma í íslenskri bókmenntasögu og töluðu um skaðsemi reykinga og óviðurkvæmilegan reykinga- og almennan svalllífisáróður í sautjándu aldar gamankvæðum. Hér að neðan fylgir stuttur kafli úr kynningunni og glæran sem með fylgdi:

„Undir lokin langar okkur að reka smiðshöggið á röksemdafærslu okkar með því að sýna ykkur niðurstöður rannsóknar doktors Meyvants K. Espólíns sem sýndi glögglega fram á að fylgni er með lestri 17. aldar gamankvæða og neyslu vímuefna. Eins og sést berlega á þessu grafi verða þeir sem lesa fleiri upplýsingargamankvæði sólgnari í vímugjafa af ýmsu tagi en aðrir.

Rannsóknin náði til 25 þúsund Íslendinga á aldrinum 12–86 ára og var framkvæmd á árunum 1932–1997, þó ekki á Borgarfirði eystri, en árið 1997 lést Meyvant. Svarhlutfall var 97,3 prósent, og svöruðu hlutfallslega fleiri Austfirðingar en aðrir landsmenn. Hvort það tengist austfirskum uppruna Stefáns Ólafssonar skal ósagt látið.“

Rannsókn dr. Meyvants K. Espólíns

þriðjudagur, mars 01, 2005

Gören

Hvað ef þýska sögnin machen væri ekki machen heldur gören?

„Nein! Das darfst du nicht gören! Gör das nicht!“

„Hast du NICHTS GEGÖRT?“

Gaman er að bera þetta fram með ýktum þýskum hreim en að þessu hef ég nú hlegið lengi dags.
Kannski of mikið gler

Fyrst þegar ég sá þetta hélt ég að Perlan ætti að verða herstöð.