sunnudagur, maí 01, 2005

Will you sign my yearbook?

Í 10. bekk í Garðaskóla var búin til árbók að ammriskum hæ-skúl-hætti. Vandað rit rauðleðurbundið í harðspjöld með skólans gullna menntamerki sanserað á kápu. Mynd af öllum hjá sjálfvöldu mottói og svo nokkrar línur fyrir neðan sem ætlast var til að sá fótógraferaði áritaði með einhverjum hætti í bók annars manns.

Lenska var það að biðja alla að árita: pervisna strákinn sem maður hafði kannski yrt einu sinni á í leikfimi í áttunda bekk, strákinn sem maður lenti einu sinni í slag við í níunda bekk, besta vin manns, og versta óvin sinn fyrir kennsluhlé í tíunda bekk.

Dæmi um áritanir í bókinni minni (stafréttar að sjálfsögðu):

Hæ, hæ Atli! Takk fyrir öll árin í G.G og Vorferðina Lofaðu að bregða mér aldrei svona aftur Bjarta framtíð A
[Engin hætta á því, A, þar sem ég hef aldrei hitt þig síðan.]

Takk fyrir 4 ár í Helvíti takk sjáumst B
[Þess má geta að B er með úfið hár og sinnislaus augu á mynd.]

Fullt af kóreskum táknum sem ég skil ekki en gætu sagt hvað sem er. T.d. „Þú ert banani.“

Jæja Atli nú er skólinn bara búinn Þá er bara að djamma ærlega í sumar Farðu vel með þig C
[Ég djammaði ekki það sumar, fröken stofnanamatur.]

Takk fyrir veturinn. Haltu áfram að vera fyndinn en passaðu þig ef maður lærir of mikið þá verður maðu “klikk”. Þú ert á hættumörkum
[Ég veit.]

Blessaður Atli! Takk fyrir samveruna í GG og það var ýkt gaman að kynnast þér betur á Laugarvatni! By the way, takk fyrir fræðsluna um "saurgerlana"!!
[Það var ekkert. Ég man mjög vel eftir þessu, í vorferðinni var ég með saurgerla í sundlaugum á heilanum og hættuna sem af þeim stafaði. Kvað svo rammt að þessu að um mig safnaðist hópur lærisveina sem hlustaði á þetta ófagnaðarerindi.]

Elsku Atli! Takk fyrir árin í G.G. og þýskutímana. Bjarta framtíð, I will miss you … Sjáumst D
[Nú, söngstu Ást til mín? Var ég ökuþórinn á rauða Ferrarínum?]

Kæri Atli … ! Takk fyrir árin í Garðaskóla. Það var gaman að fylgjast með rökræðunum við E. Gangi þér vel, bjarta framtíð, F.
[Mér til mikillar undrunar komst ég að því að F hefur ritstýrt gefinsblaði fyrir stelpur um alllanga hríð. Allir að meika það nema ég.]

Elsku Atli! Takk fyrir árin í GG. Vonandi gengur þér allt í haginn! Sjáumst á djamminu í sumar!
[Uuu, nei. Untermensch.]

Elsku Atli minn! Takk fyrir arin í G.G. Ef þú heldur áfram þessum stærðfræðibókfærslugúrústælum þá munt þú meika’ða feitt í MR! G
[Hahahahahahahahahahahaha. Hahahahahahahahaha. Einmitt í þessum greinum.]

Já, takk fyrir samveruna í Garðask. Gangi þér vel í framtíðinni og í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur! Þú átt framtíðina fyrir þér í hverju sem er … Bjarta framtíð! H
[Hverju sem er? Viltu ráða mig í stúlknasveitina þína? Ég get líka verið siðgæðisvörður þín og hins aldna kærasta þíns sem ég las um í DV.]

Hey Atli – 3. ríkið mun koma. En allavega, nýttu hæfileika þína í náminu til þess að verða ríkur í framtíðinni. Gangi þér vel við það og takk fyrir árin í GG. Skemmtu þér í sumar og MR.
[Ég kaus þig ekki í Idolinu.]

Kæri Atli! Húmoristi að guðs náð þó svo að það sé ekki nema örfáir sem ná húmornum (og því miður er ég ekki þar á meða) Bið annars að heilsa Steinunni og hafðu bjarta framtíð – I
[Nei, nei. Ég er ekki allra. Gott samt hjá henni að viðurkenna þessa staðreynd, þar eð ég minnist þess aldrei að hafa eytt orði á I. Nokkurn tíma. Og hver í andskotanum er Steinunn?]

Halló Atli! Ég þekki þig ekki mikið, en gangi þér vel í framtíðinni, J
[Flott, eini sem þorir að segja hlutina eins og þeir eru.]

Kæri Atli!! Þá er komið að kveðjustund en ég bíð bara spennt eftir að sjá þig í sjónvarpinu einhvern tímann að mótmæla e-u. Sjáumst!!
[Ha? Enn fremur, óþekkta manneskja: Var kveðjustund okkar átakanleg?]

Hæ hæ Atli! Ég þakka þér fyrir árin í GG! Svo vil ég spurja þig er eitthvað sem þú veist ekk? Gangi þér vel í lífinu! K
[Ég veit að spyrja er með ypsiloni, það er i í endanum á ekki og beinar spurnarsetningar koma í kjölfar tvípunkts.]

Hallo! Atli Takk fyrir árin í GG. Gangi þér sem allra brest [haha] í framtíðinni. Þér á örugglega eftir að ganga vel í MR. Bjarta framtíð
[Mér gekk þó aldrei svo vel að komast framan á símaskafkort úti um allar trissur. Hjá bresta símafyrirtækinu.]

Atli! Takk fyrir allt (sem er nú soldið lítið) en þú ert skondinn náungi! L
[Annar ærlegur fýr.]

Gubb var að prumpa drullu yfir gula gangbraut þegar brauðristin tók bíbí og setti á hann auka rörbúnað.
[Þessi maður fór í Versló. Ljóðabók eftir hann er væntanleg á vegum Nýhil.]