þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Litið í foryustugrein vefritsins

Ég hef aldrei haft neina sérstaka skoðun á Páli Magnússyni. Hann hefur hins vegar vaxið í áliti mjög hratt undanfarna daga:

„Ríkissjónvarpið hefur ekki sinnt menningarumfjöllun nægilega vel en Rás 1 sinnir henni hins vegar ágætlega. Ef réttlæta ætti tilvist Rásar 1 með því hversu margir hlusta á hana þá yrði hún lögð niður. En ef menn reka fjölmiðil á menningarlegum forsendum þá verður að nota annan mælikvarða á það hvernig til tekst en einungis áhorfenda- eða hlustendafjöldann.“

Páll segir allt sem ég vil heyra. RÚV lýtur nefnilega öðrum lögmálum en allir aðrir fjölmiðlar vegna þess að það er ekki rekið á sömu forsendum því það miðlar (eða á að miðla) annars konar efni. Þetta skilja ekki allir. Svo leggur hann líka til að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði og tilfærir þau rök að þannig sé BBC. Það þarf nú ekki meira til að ná mér slefandi en að vilja gera RÚV meira eins og BBC, sama á hvaða sviði það er.

Mér finnst að RÚV eigi að vera á fjárlögum, utan auglýsingamarkaðar. Það sem þarf síðan að gera er að hagræða í stofnuninni, einfalda rekstur og skrifstofuhald og dæla síðan peningum í dagskrárgerðarfólkið. Þannig, og aðeins þannig, verður gott útvarp og gott sjónvarp til.

Leiðari Morgunblaðsins í dag:

„Morgunblaðið hefur ítrekað lýst þeirri skoðun, að selja eigi Rás 2. Það eru engin rök fyrir því, að ríkið reki afþreyingarstöð í samkeppni við aðrar slíkar á markaðnum. En jafnframt hlýtur að koma til greina að beina sjónvarpsstarfsemi RÚV í annan farveg en nú er. Íslenzkt þjóðfélag þarf á því að halda, að á boðstólum verði sjónvarpsefni, sem hafi eitthvert menningarlegt gildi í víðri merkingu þeirra orða. Ameríska ruslið, sem einkastöðvarnar bjóða upp á til afþreyingar, er orðið svo yfirgengilegt að það er orðin þjóðfélagsleg nauðsyn að skapa þar eitthvert mótvægi.“

Ég get skrifað undir þetta í meginatriðum. RÚV fær 2400 milljónir á ári. 2400 milljónir. Það væri hægt að búa til tvo íslenska sittkom-þætti og þrjár dramaseríur á ári fyrir þann pening. Fyrst Danir geta þetta þá getum við það. Og þegar talað er um menningarlegar skyldur RÚV, þá er enginn að tala um óperur og sembaltónleika einvörðungu. Það hefur líka menningarlegt gildi að búa til íslenska þætti um það hvernig Íslendingar lifa, hvernig þeir skynja heiminn, hvað þeim finnst fyndið osfrv.

En aftur að Páli:

„Ég gekkst nokkuð upp í því á háskólaárum og nokkuð fram eftir aldri að vera trúlaus efahyggjumaður og montaði mig af því í alls konar samhengi. Ég tók ekki meðvitaða ákvörðun um að hætta að vera trúlaus og fara að trúa, en það hefur orðið breyting innra með mér hin síðari ár. Í dag svara ég spurningunni með já-i. Ég er trúaður. Það væri enginn tilgangur með öllu þessu bardúsi ef ekki væri til æðri máttur.“

Infidels, beware. Svona fer fyrir ykkur.

Annars vex Blaðið ótt og títt í áliti, einkanlega vegna þess sem Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar í það. Það er undantekningalaust skemmtilegt sem hún skrifar.