þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Nýja stafsetningarorðabókin

Mig langar að byrja á því að fagna þessu þjóðþrifaframtaki. Bravó, bravó, bravó.

En þá rakleitt að gapastokknum. Ég hef aldrei skilið hvers vegna það er ekki hægt á Íslandi að gefa út heildstæða orðabók sem þjónar breiðum fjölda fólks, alveg eins og gert er í útlöndum. Orðabók sem er allt í senn: framburðarorðabók, réttritunarorðabók, beygingarorðabók, merkingarorðabók, orðsifjabók, samheitaorðabók og málnotabók.

Svona bækur eru til alls staðar í kringum okkur. Í þeim stendur uppflettiorðið fremst (rétt stafsett og með afbrigðum), kyn þess og kenniföll fyrir aftan og svo framburður hljóðskrifaður innan hornklofa. Sagt frá erfiðri/varasamri beygingu og síðan kemur definisjón eða –sjónir (með samheitaívafi) og umfram allt praktískar dæmasetningar í samhengi um hvernig á að nota orðið. Loks kemur örstutt afleiðsla þar sem uppruni og þróun er rakin.

Nú segið þið að slík bók yrði klettur að vexti. Þá segi ég: Nei, öllum óþarfa yrði sleppt (skáldamálsorðum, landshlutamáli og öðrum kúríósítetum sem hægt er að safna saman annars staðar).

Það þarf bók sem svarar á einum stað helstu spurningum sem vakna í dagsins önn. Í dag er þetta allt saman í milljón bókum og mörgum tonnum af pappír, og það er ekki einu sinni til alvöru íslensk framburðarorðabók (bara sambræðingur upp úr kennsluhefti í hljóðfræði) eða beygingarorðabók (bara á netinu). Ég hef heldur einhvern veginn aldrei botnað í Orðaheimi og Orðastað.

Það fyrsta sem öskraði annars á mig þegar ég opnaði nýju stafsetningarorðabókina var innsláttarvillan Bernouilli-lögmál á bls. 679, en svo kom það rétt Bernoulli-lögmál á bls. 712.

Svo eiga notendur líka að fatta það sjálfir hvenær á að rita stóran staf í sérnöfnum. Af hverju stendur til dæmis ríkisútvarp –ið í flettunum en Ríkisútvarpið í einhverri rammagrein aftast um stóran staf? Af hverju er orðið Mannanafnanefnd/mannanafnanefnd ekki einu sinni í bókinni?

Að öðru leyti er ég afar sáttur við nýju stafsetningarorðabókina. Nema þar er gerð tilraun til að setja einhverjar algildar reglur um kommusetningu. Þið vitið hvað mér finnst um það.