laugardagur, febrúar 01, 2003

Doctor philosophiae

Bloggari var að koma heim af æsispennandi fræðaviðureign sem átti sér stað í hátíðarsal Háskólans. Þar öttu kappi Ármann Jakobsson annars vegar og Sverrir Tómasson og Bergljót Kristjánsdóttir hins vegar. Referee var Anna Agnarsdóttir, deildarforseti heimspekideildar.

Bloggari hafði einkum þær áhyggjur er hann tölti til viðureignarinnar að hann mætti allt of snemma og yrði þar af leiðandi stillt upp við vegg; þar yrði hann að athlægi viðstaddra, verandi ungur að árum og svo sannarlega yngri en tvævetur í fræðunum. Til þess kom þó ekki þar sem nokkur slæðingur af fólki var mættur.

Bloggari hafði einnig haft af því áhyggjur að ná vondu sæti en hann minnti að hljóðburður í salnum væri ekki upp á marga fiska. Það reyndist hins vegar vitleysa þegar til kastanna kom því að salurinn var útbúinn hinum bestu hátölurum.

Þarna voru kempur á borð við Jónas Kristjánsson, Ásdísi Egilsdóttur, Gísla Sigurðsson, Helga Skúla Kjartansson, Braga Halldórsson (íslenskukennara og ljúfmenni með meiru) og Harald Bernharðsson (Wernerslögmálsmann). Þarna var einnig mættur Andri Snær Magnason sem kleip mikið í kinnar sér og ruggaði fram og aftur lungann úr athöfninni.

Skítakuldi var úti og snjókoma en það kom ekki að sök, — ólíkt því sem gerðist frostaveturinn mikla þegar 5. bekk í Menntaskólanum í Reykjavík var sagt að hypja sig heim og koma aftur að ári þar sem landsstjórnin tímdi ekki að kaupa eldivið handa honum!

Hófst nú athöfnin á slaginu 14:00. Inn gengu deildarforseti og háskólarektor, doktorsefni og andmælendur, eða „doktorsefni og föruneyti hans“, eins og deildarforseti komst svo skemmtilega að orði síðar og uppskar hlátur. (Sagði einhver „hringsins“?) Deildarforseti og andmælendur klæddust blásvörtum skikkjum en háskólarektor og doktorsefni borgaralegum fötum. Hefðu hinir skikkjuðu að ósekju mátt skarta drifhvítum hárkollum og sokkabuxum, en það er aðeins afturhaldsskoðun bloggara.

Settist nú föruneytið við pódíumið í salnum og var Sverri Tómassyni boðið að hefja mál sitt. Hann hóf að leggja út af orðinu „hugsunaraugu“ í einni málfræðiritgerðinni í Ormsbók, en hætti því fljótlega og fór að tiltaka prentvillur og telja upp uppáhaldsbækurnar sínar sem honum fannst gengið fram hjá í ritgerðinni. Þá setti hann út á það að sín væri að engu getið í verkinu þótt til hans væri vitnað og talaði um „sjálfsagða kurteisi“.

Illur hugur hans risti þó grunnt og eftir langa ræðu, hverrar efnisatriði ég hefði átt að glósa (fjandinn sjálfur! já, ég er nörd) hrósaði hann ritgerðinni og kallaði brautryðjendaverk. Ármann sté þá á stokk og fór mjög almennum orðum um athugasemdir andmælanda. Þar sem Sverrir dró heildarniðurstöður ritgerðarinnar síður en svo í efa og hafði eiginlega einungis tjáð sig um allt annað en veigamikil efnisatriði var varla um neina vörn að ræða af hálfu Ármanns. Ég hafði nú satt að segja búist við meiri illgirni og orðaskaki á borð við: „Þú ert ömurlegur fræðimaður!“ — „Nei, ÞÚ ert stétt vorri til skammar!“ — „Haltu kjafti, allt hugmyndakerfi þitt er meingallað!“ Því var ekki að heilsa. Kannski reyna alvörufúskarar ekkert að skrifa doktorsritgerðir lengur …

Þá var gert hlé en að því loknu tók Bergljót til máls. Ræða hennar komst mun betur til skila en ræða Sverris, þar sem henni lá afar hátt rómur (ólíkt Sverri) og kvað afar fast að orði (ólíkt Sverri). Hún var þó með kvef og gerði óspart gys að því þegar hún þurfti að snýta sér í tíma og ótíma. (Líkamsvessahúmor finnst þá líka í háskólafólki!) Hún gerði engar alvarlegar athugasemdir við ritgerðina og vitnaði að lokum í Hreiðars þátt heimska þegar hún fór svofelldum orðum um verkið: „Allvel, allvel.“

Eftir að Ármann hafði farið almennum orðum um „andmæli“ hennar, yfirgaf föruneytið salinn og skildi doktorsefni eftir við pódíumið. Föruneytið sneri fljótt aftur með prófbók heimspekideildar og doktorsbréf Ármanns. Deildarforseti lýsti þá doktorskjöri þar sem það væri samdóma álit doktorsnefndar og þar sem enginn hefði með tilskildum fyrirvara óskað þess að andmæla „ex auditorio“. (!!!) Var þá athöfn slitið um kl. 16:45.

Ekki vissi ég að það væri hægt að sækja um að andmæla „ex auditorio“! (Fyrir ykkur vanvitana sem eigi eruð mæltir á látínu þýðir 'ex auditorio' 'úr áheyrendasal'.) Djöfull væri það flott ef einhver gerði það! Ég ætti kannski að sækja um þetta næst þegar ritgerð verður varin við raunvísindadeild? … Ehh, nei.

Sem sagt, feitt fræðadjamm á laugardagseftirmiðdegi.