þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Tónatjasl

Og já. Meðan ég man. Hvað á uppgangur reggí-hljómsveitarinnar Hjálma eiginlega að þýða? Horfði einhver maður á þá í Gísla Marteini um daginn? Sá einhver galtómt augnaráðið í einum viðtöldum meðlimi sveitarinnar og heyrði merkingarlaust húmbúkkið sem úr honum kom útúrfreðnum?

Raddæfingar söngvarans í þessari sveit eru vondar. Hann er að farast úr tilgerð við að reyna að herma eftir einhverjum sem ég kann ekki að nefna. Víbrató til þess eins að vekja kjánahroll. Nú snýr Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi sér við í gröfinni (lesendum bendi ég á bls. 135 í bókinni Mælt mál eftir téð góðskáld (Helgafell, 1963)).

Svo er þetta með hár úr hampi falið í einhverjum selsblöðrum niður eftir baki og aflitað skegg. Hvar í andskotanum er Jan Sobieski Póllandskonungur þegar maður þarf á honum að halda að ryðja svona Hundtyrkjum úr vegi?