þriðjudagur, október 25, 2005

Mér hefur legið við andnauð í allt kvöld yfir þessu belgíska spjallþáttavídjói. Úff. Ég hlæ við tilhugsunina eina.

Það er samt eitt í þessu. Ég skil ekki hvaðan Dýfileyingar hafa það að viðtalið fjalli um einelti. Ég hef hlustað á þetta af athygli (enda er flæmska bara óskýr þýska, svipaður fídus og danska versus sænska) og mér heyrist þetta fjalla um kynlífsörðugleika sem hjónin áttu í eftir að konan fór í aðgerð. Þess vegna var spyrillinn flissaktugur fyrir, og þegar allt lagðist á eitt; alvarlegt tilefnið, grátandi konan, pípandi hænsnarödd mannsins með skeggið og svo kjánalegi karlinn úti í sal, þá er til of mikils mælst af öllum mönnum að þeir haldi andlitinu.

Síðan sagði spyrillinn að þátturinn hefði verið tekinn af dagskrá og ferill hans í sjónvarpi endað. Enda kannski ekki skrýtið. Sáið þið þessa ömurlegu sviðsmynd þarna? Guði sé lof fyrir Ríkissjónsvarpið og Kastljós í samanburðinum. Þeir mættu samt taka niður diskókúluna í vinstra horninu. Það glampar óþarflega mikið á hana.