mánudagur, janúar 15, 2007

Internetið

Mig vantar þráðlaust net heim til mín því annars er mér eiginlega ekki fært að stunda nám í hinum nútímalega og virta Háskóla Íslands. Þess vegna gerði ég mér ferð í Reiknistofnun Háskólans í Tæknigarði. Já, góðir lesendur, ÉG FÓR ÞANGAÐ! Ég lagði land undir fót, spólaði í smá snjó og sigldi þangað hina tiltölulega stuttu leið frá bílastæðinu við aðalbygginguna á bílastæðið við Tæknigarð. En bara svo ekkert fari á milli mála þá árétta ég að ÉG FÓR SJÁLFUR IN PROPRIA PERSONA Á STAÐINN. Ég, í líkama mínum, var því þegar upp var staðið viðstaddur.

Í afgreiðslunni bar ég upp þetta tiltölulega einfalda erindi, að mig fýsti að seðja mig á gæðum þráðlauss internets Háskóla Íslands, ég væri þangaðkominn að leysa úr þessum vanda, ég vildi skrá mig fyrir þessum gjörningi.

„JÁ, ÞETTA ER ALLT Á NETINU!!!!!!!!!!!!!!!!“ öskraði konan á mig eins og ég væri vangefinn.

Um þetta vil ég segja eftirfarandi: Til hvers situr þessi lítilsiglda kona í glerbúri í anddyri opinberrar stofnunar? Til að segja við mann og annan „þetta er á netinu“? „Fyrirgefðu, fröken Kona, ég finn fyrir þrýstingi í kviðarholinu, geturðu sagt mér hvar salernið er?“ „Já, það er á internetinu.“

Ég hef ekki áhuga á að lifa í samfélagi þar sem svarið „þetta er á netinu“ er gefið við öllum vanda. Ég hef ekki áhuga á að slá inn talnaraðir og lempa einhverjar snúrur í dos-stýrikerfinu ef ég get mögulega mætt á staðinn, numið mál úr annars munni og þakkað fyrir mig. ÉG VIL EKKI AÐ MÉR SÉ SVARAÐ „ÞETTA ER Á NETINU“. Ég hef ekki áhuga á því, það eru ekki allir sem vilja andlitslaust plastíksamfélag. Ég vil hafa samskipti við annað fólk, því annað fólk lyktar á ákveðinn hátt, það hefur sérkennilegt augnaráð, það talar skringilega, sumir eru ljótir, aðrir ekki. Þetta eru allt þættir sem er gaman að hugleiða í dagsins önn. Það er ekki hægt ef allur heimurinn snýst fyrir tilverknað tölvuskjás.

Og það sem meira er: Ég hef ekki þolinmæði eða andlega nennu til að standa í einhverju sem ég veit að annað fólk getur útréttað miklu betur en ég. Það tekur tölvumann ekki nema stundarkorn að setja upp þráðlaust internet. Ég slátra ekki sjálfur dýrum sem ég legg mér til munns, því til eru slátrarar. Sömuleiðis reyni ég að sneiða hjá því að afla mér sjálfur frétta af heimsmálum með símhringingum í Saddam Hússein því það eru helvítis fréttatímar í sjónvarpinu. Á sama hátt er mér ekki samboðið að feta mig sjálfur fram úr einhverju kjaftæði sem fólk fer í háskóla til að læra og okrar á öðrum til að veita, eins og til að mynda tölvunarfræði. Mér er alveg skítsama hvort þér, tölvunarfræðilærði lesandi, finnst þetta létt og löðurmannlegt verk eins og að skeina sig, en mér finnst það ekki.

Mér finnst hlutverkið sem internetið leikur í samfélaginu, sem afsökun til að reka samferðafólk af höndum sér og neita tilvist þess, plága og viðbjóður.