miðvikudagur, mars 16, 2005

Menn gera áætlanir til þess að fylgja þeim ekki eða Harmsaga ævi minnar

Í gær ákvað ég að dagurinn í dag yrði til stórræðanna. Ég gerði nákvæma og fagra áætlun um hvernig honum skyldi varið í akademísk afrek og ætlaði að fara eftir henni í hvívetna en typta mig gaddasvipu ella. Áætlunin leit svona út:

8:00 – taka til á skrifborðinu

9:15 – keyra í skólann

9:40 – mæta í beygingar- og orðmyndunarfræði

11:15 – fara á Þjóðarbókhlöðuna og lesa fyrsta fjórðung úr einni námsbók

12:00 – hádegismatur

13:00 – lesa annan fjórðung

14:40 – mæta í heimspekileg forspjallsvísindi

16:00 – kenna aukatíma

17:30 – lesa þriðja fjórðung

19:00 – borða

19:30 – klára námsbókina

21:00 – fara í bíó

Í dag vaknaði ég kl. 9:28 og mér varð svo mikið um að ég var hvorki heill né hálfur maður fram til hádegis vegna vonbrigða og huggaði mig með því að sitja í eldhúsinu og lesa dagblöð. Mér fannst ég bregðast sjálfum mér svo mikið með því að riðla planinu að ég hafði ekki geð í mér til að fylgja því frekar.

Í dag hef ég því ekkert gert af því sem á planinu stendur nema það er útlit fyrir að síðasti liðurinn komist í framkvæmd nú á eftir. Það verður gaman.