mánudagur, mars 14, 2005

Ég er Stephan G., bimbi rimbi rimm bamm

Á ég að fara að sofa eða halda tilgangslausu netrápi áfram?

Tilgangslausu? Í andvöku minni hef ég þó komist að því að 77% grunnskælinga tóku samræmt próf í dönsku árið 2004. Men det er sgu alt for lidt. Síðan þetta varð valfrjálst er allt á leið til helvítis.

Ég ætla mér að lesa ævisögu Jónasar Hallgrímssonar á næstu dögum. Hana ætla ég að lesa plaseraða á þessu dótaríi, en þetta er einhver sú alsniðugasta græja sem mér hefur verið gefin. Það er ekkert flóknara en það. Takk, matmúsella.

Já, góðir lesendur, þetta er bókasólstóll handa ritum að teyga í sig lærdómsskin augna minna. Gegnt bláum efnisbút skorðar hann af bækur allra stærða og gerða og heldur opnum á hvaða stað sem maður kýs, jafnt blaðsíðu 7 sem 432, en bókunum má halla á þrjá mismunandi vegu, allt eftir búk- og höfuðstærð lesarans. Bækur þessar geta verið svellþykkar bókmenntasögur vestrænna stórþjóða eða lítilsigld smárit amerískra sóðaskálda.

Með þessu móti getur maður lagst aftur í stólinn með krosslagða handleggi og lesið. Og borðað popp með bráðnu sméri í leiðinni (það er gott) án þess að smúttsjúga blaðsíðurnar. Síðan er þetta kjörið til að halda uppi pappírum við tölvuskjá meðan innsláttur fer fram.

Ja, hvað verður fundið upp næst? Vélheilar sem yrkja undir fornyrðislagi?