fimmtudagur, mars 03, 2005

Það er gaman í háskóla

Áðan komu Atli Freyr Steinþórsson, stud. med., læknanemi; og Stígur Helgason, cand. paed., uppeldisfræðingur, í heimsókn í tíma í íslenskri bókmenntasögu og töluðu um skaðsemi reykinga og óviðurkvæmilegan reykinga- og almennan svalllífisáróður í sautjándu aldar gamankvæðum. Hér að neðan fylgir stuttur kafli úr kynningunni og glæran sem með fylgdi:

„Undir lokin langar okkur að reka smiðshöggið á röksemdafærslu okkar með því að sýna ykkur niðurstöður rannsóknar doktors Meyvants K. Espólíns sem sýndi glögglega fram á að fylgni er með lestri 17. aldar gamankvæða og neyslu vímuefna. Eins og sést berlega á þessu grafi verða þeir sem lesa fleiri upplýsingargamankvæði sólgnari í vímugjafa af ýmsu tagi en aðrir.

Rannsóknin náði til 25 þúsund Íslendinga á aldrinum 12–86 ára og var framkvæmd á árunum 1932–1997, þó ekki á Borgarfirði eystri, en árið 1997 lést Meyvant. Svarhlutfall var 97,3 prósent, og svöruðu hlutfallslega fleiri Austfirðingar en aðrir landsmenn. Hvort það tengist austfirskum uppruna Stefáns Ólafssonar skal ósagt látið.“

Rannsókn dr. Meyvants K. Espólíns