sunnudagur, febrúar 20, 2005

Smow emm llioughthfrythe

Útlensk mál liggja að hálfu leyti í munnkækjunum. Margir gera sér ekki grein fyrir þessu. Til dæmis: s er ekki það sama og s. Þjóðverji sem segir „aus“ segir það allt öðru vísi en Íslendingur sem segir „ás“. Samt er það hljóðritað nákvæmlega eins (þó er þýski sérhljóðinn án tvípunkts enda ekki langur samkvæmt þýskum hljóðfræðistandpunkti, en það kemur ekki við efni þessa máls). Íslendingum virðist oft sem Þjóðverjar séu smámæltir þegar s kemur fyrir í máli þeirra vegna þess að þeir herpa tunguna mun meira en Íslendingum er eðlilegt við myndun sama hljóðs. Þetta er þó ekki rétt. Þjóðverjar þræða hárfína línu milli „íslensks“ s og smámælis sem íslenskt eyra kann ekki að greina.

Slíkir munnkækir, sem ég kýs að kalla svo, skipta höfuðmáli þegar herma á eftir erlendu máli. Þegar menn til dæmis tala frönsku verða þeir að fetta og bretta raddbönd og kok mjög sérstaklega til að mynda sannfærandi sérhljóða. Samt er þetta allt saman hljóðritað eins í öllum málum; íslenska orðið „dís“ er hljóðritað [ti:s], franska orðið „dix“ [dis]. Þetta i er hljóðritað alveg eins. Samt er það alls ekki sama i-ið.

Einhvers staðar sá ég samt vísindalegan samanburð á sh-, sch- og ch-hljóðum í ensku, þýsku og frönsku, respectively (shame-schon-chaud). Þar var þetta hljóðritað með tölustöfum fyrir aftan sem sýndu nákvæmlega munnstöðu sem var mismunandi fyrir hvert mál. Ég var svo vitlaus að leggja ekki þennan stað á minnið og hef ekki fundið slík vísindi síðar, ekki einu sinni í hljóðfræðikúrsinum sem ég tók fyrir jól.

Það er að minnsta kosti draumur minn að hlusta kannski á Frakka tala þýsku og segja: „Hmm, jájá, þetta schon hjá honum var voðalega mikið út í [sh]:+224;-116.“