föstudagur, febrúar 18, 2005

Brattar brekkur og kínverskir veitingastaðir og rauðar brýr

Einu sinni sá ég Hitchcock-myndina Vertigo. Mig minnir að það hafi verið á Hitchcock-dögum á Stöð tvö.

Ég hef líka séð myndina Foul Play með Goldie Hawn og Chevy Chase. Í þeirri mynd var vondur albínói með rauð augu sem gerði aðalpersónunum lífið leitt. Ég man líka að lokaatriðið gerðist í óperuhúsi þar sem páfinn var á uppfærslu af The Mikado eftir Gilbert og Sullivan. Gott ef það átti ekki að drepa hann.

Ég fylgdist líka með þáttaröðinni Tales of the City. Ég man ekkert eftir henni annað en að Olympia Dukakis og Laura Linney (já, aukaleikkona Númer Eitt) léku í henni.

Ég sá einu sinni Mrs. Doubtfire í bíó. Hún byrjar þar sem Robin Williams er í stúdíói að tala inn á teiknimynd, eða reyndar syngja, Largo al factotum. Lítil fugl í búri er að syngja. Falleg mynd. Og fyndin.

Einu sinni átti ég vini sem leigðu alltaf vídjóspólur með mér. Í einni þeirra fór kafteinn Kirk aftur í tímann til að bjarga hvölum. Milli þess sem hann fór í strætó með geimveruvini sínum. Það rigndi oft í myndinni.

Í minningunni finnst mér ég hafa séð allar þessar myndir um sumar; þær skapa að minnsta kosti sumar í minningunni. Þær eiga það allar sameiginlegt að gerast í San Francisco um sumar. Ég held að San Francisco sé bjartasta borg í Ameríku. Mér finnst eins og ég þurfi að fara þangað.