þriðjudagur, maí 10, 2005

SovétiðÖreigi festir sovétfánann á rjáfur Ríkisþinghússins í Berlín. Ömurlegar rústir Berlínar sjást í bakgrunni.

(Stemmningstónlist til að fylgja færslunni er að finna hér. Finnið þið ekki skriðdrekadrunurnar og klass-klass-klass-fótatakið í þessu? Frábært!)

Í dag var haldið upp á 60 ára ártíð Þriðja ríkisins með eins kommúnískri hersýningu og hugsast getur á Rauða torginu. Það sem var einna skemmtilegast við þann atburð var að sjá forseta Bandaríkjanna skælbrosandi hjá grafhýsi Leníns að veifa hermönnum með rauða fána og Stalínsmyndir. Svona eins og að sjá meðlim í ritstjórn Vantrúar lifa sig inn í messu.

Annars eru sovéskar hersýningar mjög skemmtilegar. Austurevrópska marseringarafbrigðið er þannig að menn reisa fót í allt að því níutíu gráðu horn og stappa tiltölulega harkalega niður um leið og þeir sveigja handlegg úr hinni áttinni með krepptan hnefa yfir maga. Þetta afbrigði kemur upphaflega frá Rússlandi en náði fagurfræðilegri fullkomnun í Austur-Þýskalandi eins og sjá má í kvikmyndinni Goodbye Lenin.

Austurevrópska mílítarismamódelið tekur einnig til buxna sem virðast mjókka nokkuð niður fyrir neðan hné. Einnig má minnast á sovésk/rússnesk kaskeiti, sem eru iðulega alveg fáránlega stór í alþjóðlegum samanburði. Auk þess virðast allir hermenn í Rússlandi bæði fyrr og nú vera prýddir milljón og einni orðu. Drýgja þeir almennt fleiri afrek en vestrænir hermenn?

Það sem ég saknaði þó í dag voru eldflaugapallarnir sem voru iðulega skemmtileg sjón á Rauða torginu í denn.