mánudagur, desember 11, 2006

Það sem ég hugsa um stundum

Það er hægt að þekkja upptökur sem Útvarpið gerði fyrir 1987 mjög auðveldlega. Þær eru svolítið holar, það bergmálar í þeim, stúdíóið er mjög greinilegt. Skúlagata 4 var heldur ekki hönnuð sem útvarpshús heldur sem skrifstofuhúsnæði og svo voru notuð makeshift-stúdíó í 28 ár sem búin voru til úr skrifstofum með steinsteypuveggjum. Endurkast í hljóðnemann var því rosalegt. Einnig voru venjulegir gluggar á öllum stúdíóum og það kom fyrir að þegar stórir trukkar keyrðu eftir Sæbrautinni til og frá höfninni heyrðist dynurinn mjög vel í upptökunni.

Þetta breyttist allt þegar flutt var í sérhannað Útvarpshús árið 1987. Stúdíóin eru súspenderuð frá burðarvirki hússins og þess vegna heyrist ekki bofs inn þótt himinn og jörð séu að farast fyrir utan.

Það eru ekki gluggar í stúdíóunum í Efstaleiti og þess vegna er oft mjög vont loft þar, þungt og rykmettað, enda eru stúdóin klædd með hnausþykku filti, borðin sömuleiðis. Í öllum útvarpshúsum í Evrópu nema tveimur er það regla að opnanlegir (en vel hljóðeinangraðir) gluggar séu í hljóðstofum. Það er reyndar ekki heldur einn einasti gluggi á jarðhæð Útvarpshússins og þess vegna er oft ólíft þar vegna myrkurs. Þetta er vegna þess að gáfumennið sem hannaði Útvarpshúsið tók mið af höfuðstöðvum BBC í Belfast á Norður-Írlandi, en þar eru ekki gluggar á jarðhæð og úthliðum til þess að a) ekki sé hægt að henda mólótov-kokteilum inn eða b) keyra skriðdreka inn í húsið. Þessi maður gerði sér ekki grein fyrir því að hverfandi líkur eru á slíkri hættu á Íslandi.

En aftur að hljóðinu. Í Efstaleiti eru notaðir stefnuvirkir hljóðnemar. Stefnuvirkir hljóðnemar ná bestu hljóði ef það berst þeim frá litlu keilulaga svæði fyrir framan þá. Ef menn eru inni í þessari keilu þá er hljóðið gott, annars ekki. Efstaleitishljóðíð er því mjög þétt. Stúdíóið er hér um bil dautt að frádreginni þessari keilu og röddin er mjög vel mótuð. Þess vegna er auðvelt að greina á milli Skúlagötusándsins 1959-1987 og Efstaleitissándsins 1987-.

Það er samt eitt sem er sérstakt við Efstaleitissándið. Inni í öllum hljóðstofum eru venjulegar klukkur með sekúnduvísi sem eru allar tengdar við kanadíska atómklukku. Digitalklukkurnar eru líka tengdar þessari atómklukku. En sekúnduvísirinn á venjulegu klukkunum er mjög mishávær. Hann er sérstaklega hávær í stúdíó 5 og heyrist greinilega í öllum upptökum sem þar eru gerðar. Tikk, takk, tikk, takk, tikk, takk. Allar útvarpssögur eru teknar upp í stúdíó 5, og ef þið hlustið mjög vandlega á einn lestur útvarpssögu og gefið gaum að umhverfishljóðum hafið þið komist í tæri við einn máttarstólpann í Efstaleitissándinu.