þriðjudagur, apríl 15, 2003

Tillaga

Horfði á Meistarasöngvarana frá Ameríku um daginn. Það er ekkert fútt í þessum þáttum, fyrir utan dómarann Simon Callow. Hann er Beckmesserinn í hópnum, svona hier-wird-nach-den-Regeln-nur-eingelassen-gaur.

Þetta væri miklu skemmtilegra ef dómurunum væri gert að skarta hnésíðum pokabuxum, vesti, fjaðraðri húfu og digurri gullkeðju um hálsinn.

Þá væri einnig við hæfi að láta públíkum og söngvara standa teinrétt í upphafi hvers þáttar meðan forleikurinn að Meistarasöngvurunum er spilaður. Það gengi áreiðanlega vel í áhorfendur Kanalands.

Húfur og vettlingar

Ég hef átt nokkrar húfur um dagana, og líka nokkur pör af vettlingum, en alltaf týnt þeim jafnóðum. Þegar ég tek þetta af mér hverfur draslið samstundis.

Síðustu húfunni týndi ég í strætó í febrúar, og stuttu síðar einkar eigulegum prjónavettlingum (hvar veit ég ekki). Næst þegar ég legg í að fara út með húfu á hausnum og vettlinga á höndum ætla ég að sauma hvort tveggja kirfilega í úlpuna eins og gert er við litlu börnin.

Það ætti að duga.