föstudagur, desember 17, 2004

Íslenskt menntakerfi með óljósri tengingu við bilaðar fartölvur

Á eftir er ég að fara í háskólapróf í námsefni sem ég lærði til hlítar í Garðaskóla árið 1999.

En hvað um það, nú er þar til máls að taka sem ég sest við langeld með Lappanum stuttu eftir miðnætti í gærkveldi og ætla að kveða með honum um heimildatilvísanir og hvers vegna það er mikilvægt fyrir háskólastúdenta að halda röklegum þræði í ritgerðum. Sem ég opna glósurnar verður Lappinn að bláskjá og drepur á sér. Sömu sýmptóm og við harðdisksstoppið í nóvember. Endurræsingartilraunir báru ekki árangur.

Hét ég þá á heilagan Þoddlák að græða Lappann yfir nótt en fara ella að morgni dags niður í skóla og lesa þetta í tölvuverinu í Árnagarði.

Vakna ég kl. 8 í morgun og kveiki á Lappanum. Ekki virkar hann. Þá lyfti ég honum varlega upp af frjálsu fullveldi mínu og slengi honum nokkrum sinnum í borðið og eitthvað hrekkur í samband. Hefur engum sögum farið af harðdisksstoppi í morgun.

En það er greinilegt, og skilji lesendur minn ljósan vilja, að ákveðin tölvufyrirtæki hér í bæ fá að líta fallstykki atlneska hersins á næstu stundum.