miðvikudagur, maí 11, 2005

Académie française

Franska akademían er stórfengleg stofnun. Þar funda gamlir menn í barokkhöllum ífærðir herforingjamúnderingum með korða og fjaðurhatt og samþykkja pirringslegar ályktanir gegn heimskulegu málfari og enskuslettum.

Dæmi: öldungasamkundan bannaði Sjökkum og Sjonmaríum þessa heims að segja e-mail á dögunum, en bauð þeim að segja courriel í þess stað; myndað af courrier électronique (fr. ‘rafbréf’).

Laxnessjálkurinn fabúleraði um það í gamla daga að „akademía íslensk væri í túngutaki alþýðu“. Þetta er alrángt hjá honum. Akademíu íslenska ætti að stofna þegar í stað, hætta að klæmast með einhverja helvítis „málnefnd“ og setja bara á stofn almennilegt lærdómslistafélag og gera brot á ályktunum þess refsiverð í hegningarlögum!

Ég krefst þess að Landspítalinn verði teppa- og mahónílagður í hólf og gólf, hann flúraður aðeins að utan og loks gefinn undir starfsemi Akademíunnar um aldir alda. Ég býðst til að gegna embætti fyrsta aðalritara um ævi minnar daga. Ég vil líka fá flotta búninga.

Ef við miðum okkur við Frönsku akademíuna, þá eru 39 sæti laus. Hverjir eru memm?