sunnudagur, október 01, 2006

Loksins skil ég þetta, loksins

Það hefur komið fyrir margsinnis undanfarnar vikur að ég hef vaknað með einhvern stórasannleik í höfðinu. Á mörkum draumtíma og rauntíma finnst mér eins og ég hafi skilið eða uppgötvað eitthvað hulið.

Við skulum taka dæmi. Vekjaraklukkan hringir og ég kem hægt og rólega upp úr djúpinu en með þá bjargföstu vitneskju að allt verði bráðum ókeypis. Þá hugsa ég sem svo, og finn til gríðarmikils léttis, ég er oft æstur og glaður: „Mikið er gott að ég vaknaði rétt fyrir klukkan sjö. Mikið er ég rosalega ánægður með að hafa vaknað einmitt núna rétt fyrir sjö, því klukkan sjö verður allt ókeypis. Það verður allt ókeypis. Bráðum verður allt ókeypis.“

Svo rís ég upp og nudda augun, og á leiðinni fram í eldhús gleymi ég þessu smám saman. Þegar lýsisskeiðin er full er ég yfirleitt búinn að steingleyma uppgötvuninni sem mér þótti þó firnamerkileg þegar ég vaknaði þremur mínútum áður. En ég man bara að uppgötvunin var merkileg. Og líka sérstaklega mikilvæg.

Ég veit eiginlega ekki hvað svona lagað á að þýða.