föstudagur, mars 14, 2003

AK

Akureyrarferðin var hin ánægjulegasta. Mig rekur ekki minni til að ég hafi ferðast með innanlandsflugi áður, þannig að það var heilmikil upplifun að spenna beltið, fara í loftið, drekka einn Svala, lenda og koma út í öðru landi. Þessi flugferð var svo stutt að það var ekki eðlilegt.

Akureyri er skrýtinn staður og kynlegur. Maður er á Íslandi en samt ekki. Fólkið talar undirfurðulegt afbrigði málsins en notar sama gjaldmiðil og við hin. Þá voru götuskiltin einnig á íslensku, mér til nokkurrar furðu.

RÚV-arar, þessir öðlingar, létu okkur fá bílaleigubíl og á honum þeystum við um eyrina í sætsíing áður en haldið var upp í MA. Húsakosturinn þar er skrýtnari en á Menntaskólareitnum, og er þá mikið sagt. Gamla skólahúsið þeirra MA-inga er um margt fallegt, en gera þyrfti nokkuð við það að innan. Þá hafa þau helgispjöll verið unnin á húsinu að gert hefur verið gat á bakhliðina hvar leiðir út í rana á enda hvers menn koma inn í ofurmódernt og straumlíneart lókal sem MA-ingar nefna Kvosina.

Var þar keppt. Var þar sigur unninn.

Á veggjum gamla skólahússins hanga margar myndir af gömlum útskriftarárgöngum úr skólanum, og eru elstu myndir frá þriðja áratug tuttugustu aldar, eins og gefur að skilja. Hló þá menntskælingurinn ég þar sem elstu myndirnar á veggjum Reykjavíkurskóla eru ívið eldri. Hnuss, þetta ungviði á Akureyri.

Eftir keppnina fórum við á Greifann restörang þar sem ég flottræflaðist og fékk mér steik. Varð þá ymjan mikil á bekkjum þegar uppskátt varð það að ég skyldi ekki borga með fimmþúsundkonu eins og minn er jafnan siður. Hatar ekki flottræfilinn, mar.

Að mat loknum héldum við í aðeins meira sætsíing þar sem ég vann mikið hreystiverk. Ég stökk ofan af geigvænlegu hengiflugi gríðarlanga vegalengd ofan á grjótharðan snjóskafl og lenti með þeim yndisþokka sem mér er svo eðlislægur. Af einhverjum völdum þótti viðstöddum ástæða til að hlæja að þessari fegurð. Þeir um það, helvítin á þeim.

Síðan var flogið heim og var þá kátt í vélinni.