laugardagur, mars 01, 2003

Þýskuþrautin
Þá hafa resúltöt Þýskuþrautarinnar verið gjörð heyrinkunn. Yfirritaður varð í fyrsta sæti, Andrés nokkur í 4.B í öðru og Magnús félagi minn Sigurðsson í því þriðja.

Ekki er ég á leiðinni til Þýskalands annað árið í röð þannig að ég óska Magnúsi held og lykke í Tyskland í sumar. Ekki mun hann sjá eftir þeim tíma.

Athygli vekur að MR-ingar skipa fimm efstu sætin, og máladeildarnemendur efstu þrjú. Gott mál það.

Alþjóðleg strætóferð

Fyrst þessi færsla hefur tekið svo internasjónala stefnu er ekki úr vegi að greina frá ævintýralegustu strætóferð lífs míns.

Þannig var mál með vexti að á Hlemmi kom inn hópur af blaðskellandi Kínverjum sem hófu fjálgar samræður í sætum sínum. (Mikið óskaplega talar þessi þjóð annars fallegt mál, með sérhljóðum sem gera mann grænan af öfund.) Með svona tveggja stoppistöðva millibili kom inn í vagninn nýr hópur af Kínverjum með innkaupapoka og allir virtust þeir þekkjast.

Í Kringlunni kom inn rauðbirkinn maður með húfu og gleraugu sem settist við hlið mér, tók upp farsíma og mælti á samísku, að því er mér best heyrðist. Mér datt í hug að snúa mér að honum og spyrja hann á sænsku hvort þetta væri samíska sem hann talaði, en brast kjark.

Það mun ég sýta til æviloka og lauk þar með ævintýri þessu.