laugardagur, apríl 05, 2003

En skandaløs begivenhed

Var að koma af MorfÍs-úrslitunum, þar sem viðhafður var mesti dómaraskandall sem samanlögð mannkynssagan kann frá að greina.

Mínir menn stóðu sig betur en Verslingar í öllum tilfellum, voru ávallt rökfastari og töpuðu sér aldrei í asnalegum fíflalátum eða tilgangslausum skrípalátum. Það sem helst stóð í manni eftir flestar ræður Verslinga voru öll ófyndnu sniðugheitin þeirra, en hönd festi aldrei á efnisatriðum þeirra, því þau voru svo vel falin í öllum fyndinleikanum.

Jóhann Alfreð Kristinsson klykkti út í hvorritveggja lotunni með góðri ræðu í enn betri flutningi, og tók Breka Versling algjörlega á öllum sviðum. Eftir magnaða lokaræðu Jóhanns lyppaðist Breki upp í pontu og reyndi að halda andlitinu með skætingi og sömu klisjunum sem Verslingar höfðu staglast á frá upphafi.

Þá voru Verslingar gefnir fyrir frekar sóðalegan orðaforða og ódýran húmor sem tókst sérstaklega ekki hjá fánanum með gjallarhornið því hann hafði ofreynt sig. Breki tók einmitt upp á því að æpa lokaræðuna sína í míkrófóninn upp á effektinn sem reyndist enginn þar sem sarg hans og garg skar í hlustir.

Í dómarahlénu sást það á Verslingum uppi á sviði að þeir héldu sig hafa tapað. Liðsmenn frekar súrir á svip og svona. Einnig heyrðist í valinkunnum Verslingum úti í sal að það gengi bara betur næst.

En hvað gera dómararnir? Jú, þeir dæma Verslingum sigurinn. Það ætti kannski bara að taka upp á því að dæma lélegra liðinu sigurinn í öllum tilfellum í öllum kappleikjum. Það væri áhugavert.

MR-ingar unnu þessa keppni og það vita allir sem á horfðu.

Valgaften

Hins vegar voru engin brögð í tafli þegar kosningaúrslit Skólafélagsins og Framtíðarinnar voru kynnt bagefter. Ég hlaut nokkuð örugga kosningu í embætti skólaráðsfulltrúa sem er mál gott.

„Ég vil þakka … það trausssssssss … sem mér hefur verið sýnt … með því að kjósa mig … skólaráðsfulltrúa … nú.“ Djöfull hatar maður ekki Svein Björnsson á Þingvöllum '44.

Nýjar váðir

Ég verð að fá mér nýjar buxur. Þetta gengur ekki mikið lengur.