sunnudagur, apríl 10, 2005

Skref og mark

Skref voru stigin í átt að ákveðnu marki í dag. Þó ekki sama marki og nægði enum hávu Hellenum til sigurs og eilífrar setu á Ólympstindi evrópskrar knattspyrnusögu um helgina.

Mörg prik

En talandi um Grikki á EM. Fréttablaðið fær ótrúlega mikið af prikum fyrir íþróttasíðurnar í dag. Þar segir: „Fyrirliði Evrópumeistaranna, Þeóðoros Zagorakis, var valinn besti leikmaður EM.“

Í stað þess að apa allt hugsunarlaust eftir Reuternum og skrifa 'Theodoros' nýttu þeir sér þann möguleika sem íslenska stafrófið býður upp á að skrifa nafnið hans eftir nýgrískum framburði. Sem er flott.

Loksins er þeirri blóðugu baráttu lokið sem Sigurður A. Magnússon hóf í vorhefti Skírnis árið 1992 með greininni 'Um íslenskan rithátt grískra orða' og henni lauk með fullnaðarsigri nýgrískumanna.

Lokaorð Sigurðar: „Ég læt þessi dæmi nægja til að ítreka þá skoðun að Íslendingar séu almennt hörmulega fákunnandi um grískar menntir, og að löngu sé orðið tímabært að bæta fyrir þau afdrifaríku glöp að fella niður hérlendis uppfræðslu í grísku og grískum menntum við upphaf aldarinnar.“

Þetta hefur nú verið afsannað. Og sú afsönnun birtist á íþróttasíðunum af öllum stöðum.

Asnalegt fólk

Ég fyrirlít fólk sem neitar að fallast á einföld hagkvæmnisrök. Fólk sem neitar að gera hlutina á hagkvæmari hátt en tíðkast hefur og tekur ekki sönsum þegar hagkvæmnin öskrar framan í það, megi það hvergi þrífast.