fimmtudagur, september 15, 2005

Internetið og Þorsteinn Gylfason

Líf mitt hefur batnað til muna eftir að faðir minn fékk áfall yfir internetreikningnum og sagði mér að borga hann sjálfur. Ég nýt svo mikillar velvildar í foreldrahúsum að ég lét mér ekki bregða og datt ekki í hug að borga til að sýna karlinum það lið fyrir lið hvernig líkami minn myndi leysast upp af tæringu og allt falla í ógagn að interneti uppsögðu. En öðru nær, heiðraði lesandi.

Og þegar ég fer að hugsa um það, þá átti sér eftirfarandi stað á hverju kvöldi: Hmm, ég þarf að fara að gera eitthvað nytsamlegt. Best að fara aðeins á internetið áður. Blogghringur einu sinni. Svo aftur með ctrl + r, aftur aftur aftur aftur. Fréttasíður. Ctrl + r, ctrl + r, ctrl + r. Ómerkileg efnisatriði gúgluð. Hugardauði og svo er klukkan orðin 2 að nóttu. Svefn.

Ég sat fyrstu kvöldin inni hjá mér í biturð, en fór smám saman að sinna ýmsu markverðu. Til dæmis í gær tókst mér að hlusta á tvo klukkutíma af hljóðbókinni Tilraun um heiminn eftir Þorstein Gylfason, höfundur las. Þorsteinn Gylfason er fyndinn og góður upplesari; svo vill til að góðar bókmenntir eru flutningurinn að hálfu, John Gielgud hefði gert Mikael Torfason að Æskílosi. Þeir feðgar Þorsteinn, Þorvaldur og Gylfi Þ. hafa ótrúlega líka rödd. Svo hafa þeir allir rödduð samhljóð sem að réttu ættu að vera órödduð og draga seiminn á þeim, sem gefur máli þeirra aukna kúltívasjón. Framsetning Þorsteins er svo kristaltær og óbrjáluð, efnisatriðum skipað í fullkomið jafnvægi, allt sem skiptir máli sagt í réttri röð og því blandað saman við hámenningarbrandara. Það er annað en sumir heimspekikennarar (pseudo-fræðimenn, loddarar og stílslysaðir menningarmorðingjar allir saman) geta státað af. Ég hló mig máttlausan að bröndurunum í bókinni sem sígaretturödd Þorsteins kom vel til skila. Svo var hann farinn að tala um samsemdarefnishyggju og smætti og ég áttaði mig bara allt í einu: Heyrðu, ég skil upp á hár um hvað hann er að tala, og það gerðist án þess að ég tæki eftir því. Þetta er fáránlegt. Maðurinn er töframaður. Eða var. Ég skráði mig í Þórbergskúrsinn til að sitja við fótskör þína, mér skildist að líf manna breyttist til betri vegar eftir andlegt samneyti við þig. Og svo dóstu. Eftir að hafa rekið mig á andleysi og eymd hugargeldra háskólakennara (í alvöru, háskólamenn eru gjörsneyddir ímyndunarafli og húmor) finn ég vin í eyðimörkinni (í tvöföldum skilningi) sem þornar síðan upp fyrir augunum á mér. Þú ert harmdauði íslenskri menningu og mér, Þorsteinn Gylfason. Ég sakna þín án þess að hafa þekkt þig.