laugardagur, nóvember 12, 2005

Skeiðfráir jóar hverfa fram að fljóti

Í fjórða bekk gekkst ég undir fimleikapróf um vorið. Prófið átti að snúast um sjálfuppfundna fimleikasýningu með kúnstugum hreyfingum. Til þessa var búið að stilla upp ýmsum tólum í Íþróttahöllinni. Ég stakk upp á öðru við desígneraða fimleikaflokkinn minn; að ég stæði úti á gólfi og þyldi Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson frá hjartans rótum og þeir myndu leika framvinduna. Með þessu móti þyrfti ég ekki að taka þátt nema frá theatrölsku sjónarmiði. Þetta gekk mjög vel. Eða svona. Þríhendurnar gengu ágætlega. Allt nema þessi tröllaukna náttúrulýsing. Það eina reyndar sem þeim tókst almennilega að leika, það voru hestarnir sem Gunnar og Kolskeggur riðu til skips. Svo var ekkert handa þeim að gera í átthendunum. Ekki neitt. Reyndar voru hestarnir það eina sem þeir gátu eitthvað leikið þegar ég hugsa út í það. Í öllu hinu voru þeir bara eitthvað að fíflast og hlæja undir framsögunni. Það breytti því ekki að Haukur frænka var mjög ánægður með framtakið. Ég spyr líka lesendur: Hvernig mynduð þið færa í leikbúning línurnar: „En spegilskyggnd í háu lofti ljóma / hrafntinnuþökin yfir svörtum sal.“ Það er nú bara hægara sagt en gert, ha.