föstudagur, september 01, 2006

Drottningarviðtöl

Þurfa drottningarviðtöl í íslensku sjónvarpi að vera slæm í sjálfum sér? Nú skil ég ég drottningarviðtal sem atburð þar sem einn fulltrúi ákveðinnar skoðunar, oftast óvinsællar eða sérlega umdeildrar, mætir einn í sjónvarpssal og situr fyrir svörum, án þess að fulltrúi sé á móti, veiti honum aðhald og haldi hinni hliðinni á lofti.

Eins og ég sé þetta er það ekki aðalatriði að aðhaldið komi frá öðrum viðmælanda. Það sem skiptir mestu máli er hvernig spyrillinn kemst frá starfi sínu. Þeir sem hafa einhverja nasasjón af bresku sjónvarpi vita að þetta er ekki vandamál þar. Þar hafa spyrlar í fréttaskýringaþáttum yfirleitt það orð á sér að vera hörkutól með blóð út á kinnar. Og eru það yfirleitt.

Fyrir íslenskan sjónvarpsáhorfanda er það stundum með ólíkindum hvernig spyrlarnir í bresku sjónvarpi haga sér. Þeir eru oftast á mörkum þess að vera ókurteisir og óuppdregnir, og virðast alltaf vera ósammála viðmælandanum. Þeir eru með allt sitt á hreinu og reka stanslaust ofan í fólk, gjarnan með háði og spéi.

Það er ekki óalgengt að fulltrúar óvinsælla skoðana í Bretlandi mæti einir og út af fyrir sig í svokölluð „drottningarviðtöl“. En þegar það gerist fær það fólk enga náð og miskunn frá spyrlinum.

Þegar fólk verður brjálað yfir slíkum viðtölum á Íslandi þá finnst mér alltaf eins og það skjóti fram hjá og ráðist á ranga hlið málsins. Það skiptir engu máli hvort menn mæta einir án mótstöðu frá andstæðingi sem líka situr á þingi; það sem skiptir öllu máli er að spyrillinn haldi uppi aga í þættinum og sé laus við hispur í málflutningi sínum.

Þetta er hins vegar vandamál á Íslandi þar sem sá misskilningur á „hlutleysi“ ríkisfjölmiðla veður uppi að það þyki dónaskapur að benda valdhöfum á að þeir hafi rangt fyrir sér og misnoti lýðræðislegt umboð sitt. Aðhald er hlutverk ríkisfjölmiðils. Og aðhald verður ekki iðkað með endalausum hummum og jáum og brosum og „takk kærlega fyrir að koma í þáttinn til mín“.