föstudagur, mars 23, 2007

Spurt er

Því er haldið fram neðarlega í þessum kommentaþræði að svarið „Branden“ sé fullnægjandi þegar spurt er um Brandenborgar-kastala. Á það má líta.

Slavneskir ættbálkar byggðu þetta svæði lengi en þoldu ágang Karlamagnúsar. Árið 928 hertók Hinrik fuglari höfuðvígi slavneska ættbálksins Hevella sem Branibor hét, setti þar upp búðir og nefndi Brandenburg, til samræmis við slavneska heitið Branibor, semsagt sem hljóðlíkingu, á svipaðan hátt og fornmenn nefndu Jerúsalem „Jórsali“ og Fjölnismenn kölluðu Düsseldorf „Þusslaþorp“. Staðurinn þar sem Brandenborgar-kastali stendur á hefur því frá árinu 928 eða þar um bil heitið Brandenburg en ekki „Branden“, sem er heiti sem hefur aldrei verið til. Þannig hefur fyrri orðliðurinn 'Branden-' ekki í sér neina sérstaka merkingu umfram hljóðlíkinguna, en seinni orðliðurinn '-burg' borið laustengda merkingu við 'kastali' vegna sérstaks uppruna. Að því sambandi kem ég nánar síðar. Varla þarf því að nefna hér að örnefnið lifir ekki í tvennu lagi, aðeins einu.

Ef við gleymum nú þeirri staðreynd í bili að örnefnið „Branden“ hefur aldrei nokkurn tíma verið til í samanlagðri eitt þúsund og fimm hundruð ára málsögu þýsku þjóðarinnar, og lítum á þau rök að svarið „Branden“ jafnist á við „Windsor“ eða „Balmoral“, verður niðurstaðan þessi: Windsor er bær í Berkshire á Englandi, en Windsor-kastali er kastali í Windsor. Þannig er Balmoral-kastali kastali á landareigninni Balmoral í Aberdeenshire í Skotlandi. Balmoral er ekki það sama og Balmoral-kastali, og Windsor er ekki það sama og Windsor-kastali. Með sömu rökum mætti spyrja um Þingvallavatn og gefa rétt fyrir „Þingvellir“. „Vatn“ er nauðaalgengt nafnorð sem virðist létt á metunum, en það er samt orðhlutinn sem sker úr um merkinguna, alveg eins og „-kastali“. Þessi orð eru svokölluð lexíkalíseruð ítem sem verða ekki skilin í sundur. Enginn segir „We went to Windsor today“ og meinar kastalann. Allir skilja slíka setningu sem bæjarfélagið.

Þannig er hægt að gefa rétt fyrir hvort tveggja Brandenborg og Brandenborgar-kastali, vegna sérstakra orðhlutatengsla sem stafa af tengingu við kastalamerkinguna, þótt veik sé vegna sérkennilegs uppruna nafnsins í slavnesku örnefni. En eitt sér myndi Windsor ekki duga, heldur Windsor-kastali fullum fetum, því þar er slíkum orðhlutatengslum ekki til að dreifa. Eitt sér dugar „Branden“ ekki heldur, vegna þess að það er órjúfanlegur hluti af orðinu Brandenborg, eins og „Wind-“ í „Windsor“.

Þá er að líta á notkun orðasambandsins „Brandenborgar-kastali“ í þýsku nútímamáli, eða „die Burg Brandenburg“. Athugun á Google leiðir í ljós að „Burg Branden“ skilar 22 niðurstöðum, en engin á við „Branden-kastala“, enda hefur hann aldrei verið til. Þarna er um að ræða skiptingar milli lína eða notkun á sögninni 'branden' aftast í aukasetningu.

Hins vegar gefur leitin „Burg Brandenburg“ 16.800 niðurstöður. Þjóðverjar setja ekki fyrir sig að segja „Brandenborgar-kastali“, og þótt þeir skynji seinni orðhlutann '-burg' að einhverju leyti sem 'kastala', gera þeir það ekki mjög sterkt, sbr. slavnesku hljóðlíkinguna áðan. Þess vegna gengur hvort tveggja „Wir waren auf der Burg Brandenburg heute“ (með tvítekningu) og einnig „Wir waren auf der Brandenburg heute“ en alls ekki „Wir waren auf der Burg Branden heute“, enda '-burg' fastur viðliður, með öllu óaðskiljanlegur.

Á sama hátt er nafnið „Edinburgh Castle“ óaðskiljanlegt nafn (eins og „Windsor Castle“ og „Balmoral Castle“) jafnvel þótt „burgh“ hafi þýtt 'kastali' í fornensku. Að spyrja um Edinborgar-kastala og gefa rétt fyrir „Edin“ er sambærilegt og gefa rétt fyrir „Branden“.

Rökin eru þessi: Örnefnið „Branden“ hefur aldrei nokkurn tíma verið til stakt, og Þjóðverjar sjálfir tala ekki öðruvísi um bygginguna en sem „Brandenborgar-kastala“, „kastalann Brandenborg“ eða „Brandenborg“. Þetta var það sem sanna átti.