föstudagur, mars 19, 2004

Og meira

Síðan var reyndar latínustíll (sem var festur á filmu og birtist væntanlega í fréttum Stöðvar 2) og enskustíll í dag. Það er undarlegt með korrelasjónirnar í þeim fögum. Í báðum stílunum kom fyrir orðið borgarastyrjöld.

Þetta er undarlegt í ljósi þess að fyrir nokkrum dögum lásum við bút úr Eneasarkviðu þar sem Dídó heldur því fram að hyrkönsk tígrisdýr hafi alið svikarann Eneas.

Seinna um daginn vorum við í Macbeth í ensku. Þar mælir hann svo við draug Bankós:

„What man dare, I dare:
Approach thou like the rugged Russian bear,
The arm'd rhinoceros, or the Hyrcan tiger [...]“

Eru þetta tilviljanir? Hvaða textavensl búa hér að baki? Eru þetta samantekin ráð póstmódernistakennaranna í MR um að búa til sýndarveröld í textalíki sem nemendur falla inn í? Speglanir úr einum heimi í annan? Helga Kress?