sunnudagur, apríl 10, 2005

Farðu í rassgat, Noam Chomsky

Ég var að ljósrita vaxlitamyndir handa fimm ára stelpum í bleikum flíspeysum með hjálma áðan. Þær eltu mig inn á kontór og horfðu á mig skera blöðin í sundur með pappírssveðjunni Við að sjá það sagði ein þeirra: „Vá, kúl.“ Þá er það orð kirfilega komið inn í orðaforðann.

Síðan sagði hún: „Ég hef aldrei skerið með svona hníf.“ Þá spurði ég hversdagslega á móti: „Jahá, með hvernig hníf hefur þú skorið?“ Hún: „Ég hef bara skorið með svona barnahníf!“

Án þess að leggja neina sérstaka áherslu á nokkurt orð notaði ég réttu sagnmyndina og hún apaði hana upp á eftir mér athugasemdalaust. Og síðan er sagt að börn læri ekki tungumál með því að apa eftir!

Það var nefnilega eitt í málvísindum í fyrra sem ég var ósáttur við. Í námsefninu var spurt: Læra börn mál af 1) því að herma eftir, 2) tilsögn, 3) hliðstæðum, 4) barnalegu máli fullorðinna? Svarið við öllum þessum spurningum var 'nei' og niðurstaðan var sú að menn vissu bara eiginlega ekki sko hvernig börn lærðu mál.

Í dag urðu kaflaskipti í sögu málvísindanna á Bókasafni Garðabæjar.