þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Í öðrum fréttum

Hjúkrunarheimilið Eir hýsir fólk, hvert dauðinn hendir iðulega. Eðli málsins samkvæmt þarf ég að lesa það í útvarpið. Þá stendur „[...] lést á hjúkrunarheimilinu Eir [...]“. Ég fletti þessu orði upp og komst að því að það mun vera Eiri í þágufalli. Ég hef því sagt „lést á hjúkrunarheimilinu Eiri“ undanfarna daga. Ég fór til málfarsráðunautarins og spurði hann um þetta. Hann benti mér á það, að enda þótt Eiri væri kórrétt þágufallsmynd orðsins, þá hljómaði það ankannalega í dánarfregnum því þá væri eins og fólk hefði dáið á eyri úti í á. Sem er alveg rétt. Maður verður að gæta að samhengi.

Svo skemmtilega vildi til að inni hjá honum voru blaðamaður og ljósmyndari frá Verdens Gang í Noregi sem voru að vinna að grein um íslenskt mál og málstefnu og þátt Ríkisútvarpsins þar í. Þeim fannst svo óendanlega sniðugt að ég ætti raunverulegt og brýnt erindi um málfarsefni við þennan sérskipaða ráðunaut sem þarna sat á vakt að þeir ljósmynduðu mig í bak og fyrir og skrifuðu niður nokkur vel valin orð sem ég mælti um málstefnu Íslendinga og mikilvægi hennar.