föstudagur, janúar 20, 2006

Ég las Hávamál í gær, og í ljósi breytts atvinnulandslags míns frá því ég las málin síðast, vakti 111. vísa athygli mína:

Mál er að þylja,
þular stóli á ...


Mig langar svo að segja þessa setningu í útvarpið en mig skortir tækifærið. Í upphafi auglýsingalestrar?

„Donnnnnnnnnng. Góðir hlustendur, mál er að þylja þular stóli á! Útsala, útsala, Marina Rinaldi. HITAPOTTAR! NORMEX!!!!“

Í upphafi frétta? Í staðinn fyrir: „Fréttir. Atli Freyr Steinþórsson les“, gæti ég spilað upptöku af stórri stallarakylfu sem dynur á marmaragólfi og síðan söngla ég eða kveð im alten Stil: „Mál er að þyljaaaaaaaaaaa þular stóli áááááááá! Kjaradómur ákvað í dag að ...“

Þegar ég les dagskrána í hádeginu? „Útvarp Reykjavík. (Gamansamur tónn.) Mál er að þylja þular stóli á ... um dagskrána í dag: klukkan eitt, Laugardagsþátturinn, umsjónarmaður er ...“

Já, kostur c.