sunnudagur, ágúst 26, 2007

Spurt er

Hvað gerir málfarsfasisti sem hefur eitt kort til skiptanna, og skrifar með penna (á síðustu stundu í veislunni) til brúðhjóna „Til hamingju með hvort annað“? Hann stynur, viðurkennir ófullkomleika sinn, fljótfærni og skammsýni og skrifar innan sviga „(hvort með annað)“. Ekki ætlaði ég að fara að krassa í kortið.

Tilfinningin sem ég vildi skila fæddist sem forsetning + óákveðið fornafn. Ógildir það tilfinninguna, og gerir hana verri, jafnvel ómennska, að hún skuli ekki hafa fæðst sem fleygað óákveðið fornafn + forsetning + fleygað óákveðið fornafn? Gerir það mig að verri Íslendingi og að verri manni að hugsun mín hafi umsvifalaust fundið sér farveg í málvenju sem besti íslensku- og stærðfræðikennari mannkynssögunnar og alheimssögunnar, Sigríður Jóhannsdóttir, hefði krotað yfir með ítölsku kúrsív-barnaskólaskriftinni sinni?