föstudagur, janúar 04, 2008

Stíll

„Handþvottur er þýðingarmesta einstæða atferlið til að hindra útbreiðslu sýkinga,“ segir á bls. 29 í Tuttugu og fjórum stundum í dag.

Hingað og ekki lengra, ritstjórn Tuttugu og fjögurra stunda! Ég hafna því að ég verði að fá svona texta ofan í allt of lítinn póstkassa minn. Ég er hættur að láta stafsetningarvillur og beygingarvillur fara jafnmikið í taugarnar á mér og á yngri árum. Ég uppgötvaði þessa meginbreytingu í persónuleika mínum bara um daginn þegar textinn „Við byðjumst velvirðingar á myndtruflunum“ birtist í Ríkissjónvarpinu á Renée Fleming-tónleikum. Ég hlýt að vera inni í þessu „við“ í einhverjum skilningi. Og ég gat alveg skrifað upp á það að byðjast velvirðingar, vegna þess að mér þykir vænt um ypsilon og get unnt því þess að vera alls staðar. Ypsilonismi er merki þess að íslenskt ritkerfi sé lifandi og fljótandi. Kerfi sem er sjálfu sér nógt.

En það er ekki merki þess að íslenska sé lifandi og frjótt tungumál ef handþvottur er þýðingarmesta einstæða atferlið til að hindra útbreiðslu sýkinga. Það er merki þess að við getum hætt að lifa á þessu landi, brennt allt prentmál á íslensku og farið að afgreiða í kynlífssjoppu í Malmö.

Það er skrækróma og nefmæltur maður að tala núna í morgunútvarpi Rásar 2: „Það fer ofsalega mikið í taugarnar á mér að allar þulurnar sem eru núna, ha, nota allar alltaf L-I-T-L-A-U-S-A V-A-R-A-L-I-T-I! Ohh.“ Mikið er ég glaður að serótónínasamsetning heila míns kemur í veg fyrir að ég hafi áhyggjur af einhverju svona sem skiptir engu máli.