föstudagur, október 26, 2007

Eftirmiðdagur

Í dag, þegar beygjuljósin urðu græn, tók ég af stað tveimur millisekúndum seinna en ég hefði getað gert. Aldraður maður á vínrauðum Subaru fyrir aftan mig tapaði hins vegar sinni þolinmæði eftir eina millisekúndu og fór að flauta á mig. Honum til heiðurs ók ég á undan honum á 20 í tvær mínútur (það var þung umferð á móti svo hann gat ekki tekið fram úr mér) og á eins kílómetra hraða yfir þrjár hraðahindranir, og þegar við komum að hringtorginu fór ég ekki inn í það heillengi þótt það væri alveg autt. Svo vinkaði ég honum. Hann var gjörsamlega afmyndaður í hljóðlausri bræði sinni í speglinum. Bíllinn hans fór næstum því á hliðina þegar hann þeysti út úr torginu. Ég óska þessum manni allra heilla. Guð blessi hann.