fimmtudagur, febrúar 20, 2003

GB

Var að koma heim af viðureign Verslunarskólans og Hamrahlíðarinnar. Hvort tveggja liðið sýndi ágætistakta, en mesta athygli hlýtur þó að hafa vakið karfaskilningur Hamrahlíðunga á hundraðkallinum. Hláturprik fá þeir þar.

En, eins og Andrés Indriðason orðar það, þá er nú bara eitt lið sem vinnur ekki, og urðu það verslóskir sem bitu í það súra epli núna, 31-24 minnir mig.

Post-GB

Ákvað síðan í beinu framhaldi af því að rölta á auglýstan bókamarkað við hliðina á Eymundssyni og reyndist það mikið ævintýraland. Þar var á einum stað saman kominn meirihlutinn af lager bókaforlaganna síðastliðinn aldarfjórðung eða svo. Ég kom heim með svona 30 kg af bókum eftir að hafa fundið fjölmörg kúríosítet sem ég hef séð á bókasöfnum og hefur lengi langað í.

Til að mynda fann ég eftir áratugaleit (já, þið lásuð rétt, ég hóf leitina bevor ich im Mutterleib empfangen war) hina íslensku hómilíubók á mjög skaplegu verði. Þá kom ég auga á viðtalsbókina „Guðni rektor – „Enga mélkisuhegðun, takk!““ og hafði fest kaup á henni áður en ég áttaði mig á því. Þetta er náttúrulega flottasti bókartitill í heimi.

Það er með ólíkindum að þetta sé ekki gert oftar, það er að efna til svona markaðar. Það var allt fullt út úr dyrum og ljóst að forlögin eru ekki að tapa neinu á þessu. Þarna var ótrúlega margt að finna, og langflest á mjög góðu verði; eitthvað annað en ömurlega sama gamla fokdýra andlausa „úrvalið“ í bókabúðunum sjálfum. Fólk vill gjarnan kaupa gamalt efni!

Ég get gert mér í hugarlund að bisnissmaðurinn í Björgólfi Guðmundssyni hafi reiðst mikið þegar hann sá öll þessi verðmæti húkandi inni á lager:

Björgólfr ríki: „Starfsstúlka, hví er sjóðr sjá er hér getr at líta eigi strokinn lófum kaupfúsra manna?“
Starfsstúlka: „Æi skiluru það langar engum fattaru að kaupa svona gamalt þúst og þetter bara ógisslett og selst ekke rassgad fattaru.“
Björgólfr ríki: „Lát af sofandahætti þessum, fávísa stúlka, ok kom á kaupstefnu einni mikilli í þeim stað er Smáralind nefnisk, — ok sel þú!“

Sem er einmitt það sem starfsstúlkan gerði. Heyrið það, forlagsmenn: Komið þessu í verð!

Kanaland

Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með málflutningi sandkassabarnanna í Ameríku. „Jáneinei, við ráðumst bara á það sem okkur sýnist og þegi þú, gamla Evrópa.“ Bandaríkjamenn verða að gera sér ljóst að þeim leyfist ekki að gera hvað sem þeim sýnist á alþjóðavettvangi. Það er mikilvægt að þjóðir heims sýni að slíkur yfirgangur verður ekki liðinn mikið lengur, og að Bandaríkjamenn geti ekki rekið hernað gegn hverjum sem er án haldbærra raka. Sú fyrirlitning sem Bandaríkin hafa sýnt „gömlu Evrópu“ og reyndar heiminum öllum er forkastanleg.

Bandaríkjamenn eru heimsk, vitlaus, hrokafull, hallærisleg og leiðinleg þjóð. Nú ætti stórveldistíma þessa guðsvolaða fólks að ljúka, og sú menningarlega og pólitíska spennitreyja sem það neyðir aðrar þjóðir í vera sundur rakin.

Kominn er tími á valdaskeið sameinaðrar Evrópu undir styrkri stjórn Þýskalands! (Og kannski Frakklands, þó ekki.)