sunnudagur, febrúar 16, 2003

GB

Jahá.

Árshátíðirnar þrjár

Þær eru víst orðnar þrjár, blessaðar, og maður farinn að hafa af þeim nokkurt gaman. Ekki skil ég af hverju. Og þó.

Fyrst var það Austur-Indíafjelagið. Þangað datt mér í hug að fara í brúnum kakífötum með veiðihatt og riffil talandi valdsmannslega hollensku, – bara svona til að sjá hvernig staðarhaldarar brygðust við. Til þess kom þó ekki.

Pros tën Nannan síðan. Of grön skýra og allt það. Pedro nokkur skyldi í þeim stað greiða mér 5000 kr. íslenskar fyrir að hafa fundið orðsifjafræði orðsins 'dildo' í virðulegri, enskri orðabók. Þegar ég ætlaði að heimta þessar krónur kom í ljós að það var Gunnlaugur sem gefið hafði þetta loforð og var hann hvergi að finna.

Breiðvangur síðan alltaf skemmtilegur. Það ætti að nefna þennan stað Fallandaforað.

Eurovision

Alveg er mér lífsins ómögulegt að skilja þá menn sem amast við framburðinum 'júróvisjón' og mæla með þeim veðbjóði 'evróvisjón'. Bíðum nú við. Hvers vegna að íslenska fyrri hlutann en sleppa þeim seinni og samt þykjast voða þjóðlegur? Ef menn eru of snobbaðir til að nota enskan udtale þá er alveg hægt að fara aðeins í suðaustur og segja frekar 'ojróvizjón'. Eða bara Melodi Grand Prix eins og Bauninn nefnir þetta af stakri snilld. Og slettir frönsku.

Já, héðan í frá ætla ég að segja Eurovision en ekki Eurovision.

Ég horfði sem sagt á hátíðarhöldin á RÚV eins og margur annar og hafði gaman af. Sérstaklega hló ég mikið að aumum færeyskutilburðum stjórnenda, en væntanlega ekki jafnmikið og gervöll Þórshöfn. RÚVarar skiluðu þó sínu og klúðruðu fjölmörgum atriðum í útsendingunni eins og þeirra er von og vísa.

Stjórnendur hljóta þó að fá mikið hrós fyrir að segja Ævör Pálsdóttir og þar með uppreisn æru.

Að lögunum fluttum tók ég þá ákvörðun að gerast plebbi og kjósa lag. Eða jafnvel lög. Á endanum var ég kominn niður í þrjá flytjendur: Botnleðju, Ragnheiði Gröndal og Birgittuna. Þá mundi ég eftir Eurovisionþættinum þar sem hinn últraheimski og fávíski trommari hljómsveitarinnar Botnleðju mælti eftirfarandi orð:

„Skiluru, érað segjaðér ða! ÖLLUM hljómsveitum langar að fara í Eurovision. ÖLLUM!“

Síðan mundi ég eftir hinu 30.000 orða mótmælabréfi sem ég hafði skrifað RÚV þar sem ég velti upp þeirri spurningu hvert stofnunin stefndi fyrst hún hleypti svona skít í loftið. Mér er spurn: Ætlar Ríkisútvarpið næst að gera út her manns til að hrækja framan í alla greiðendur afnotagjalda? Mér fyndist einboðið að gera það fyrst menn eru komnir út á þá braut að vera sama þegar skitið er á sjónvarpsáhorfendur.

Ég ákvað því að greiða minni mætu gagnfræðaskólasystur Ragnheiði Gröndal atkvæði mitt, en einnig Birgittu Haukdal þar sem hún er sæt.