laugardagur, febrúar 08, 2003

Kaffið

Það mun hafa verið sumarið 2000 sem bloggari komst í kynni við BWV 211, eða „Kaffikantötuna“ svokölluðu eftir fimmta evangelistann. Það var í Bachprógramminu sem Ríkisútvarpið ákvað að helga heilan dag, dánardægur maestrosins 28. júlí, og hafi sú stofnun, kúltúrpílári samfélags vors, fyrir bljúga þökk að eilífu.

Reyndar réðst bloggari í það verk að taka alla dagskrána, tæpan sólarhring, upp á nokkrar fjögurra tíma myndbandsspólur og uppskar þess vegna hrossahlátur frá þeim er síst skyldi.

Kaffikantatan er stuttur leikþáttur þar sem óðamála faðir reynir að sannfæra dóttur sína um að láta af kaffidrykkju. Fyrr á tíð þótti kaffið nefnilega glepjandi drykkur sem tafði fólk á kaffihúsum og leiddi til hóglífis. Nema hvað, stúlkan neitar að láta af þessum ósið og telur fjálglega upp unaðssemdir kaffisins. Faðirinn hótar henni þá því að gefa hana aldrei í hjónaband. Hún lofar þá að láta kaffi aldrei aftur inn fyrir sínar varir, en strengir þess heit á laun að giftast engum nema hann setji það í brullaupssáttmálann að hún megi drekka kaffi hvenær sem hana lystir!

Kantötunni lýkur síðan á kór þar sem kaffiávana kvenna (!) er lýst og spurt hvort hægt sé að áfellast dæturnar fyrst slík drykkja sé fyrir þeim höfð.

Bloggari hefur af og til verið að raula þennan kór síðastliðin ár en rakst fyrir tilviljun á upptöku af kantötunni með Barböru Bonney og Gustav Leonhardt. Nú syngur hann kórinn hástöfum og hefur gaman af, enda laglínan ljúf og skemmtileg.

„Die Katze läßt das Mausen nicht, / Die Jungfern bleiben Coffeeschwestern,“ segir í upphafi kórsins; „kötturinn hættir ekki að veiða mýs, á sama hátt geta piparjónkurnar ekki hætt að hittast yfir kaffi“. Hvörju orði sannara.

Annars hefur bloggari aldrei skilið kaffidrykkju, eins viðbjóðslegur vökvi og þetta er. Frekar langar hann að smjatta á öskubakka en sötra einn bolla af þessu stoffi.

En Bach stendur fyrir sínu.