sunnudagur, febrúar 16, 2003

Týbingur hittir vel á vondan þegar hann hyggst troða illsakir við mig í formi ritdeilu. Námsefnið er ekki að gera sig þessa dagana og þess vegna tek ég því fegins hendi að mega munnhöggvast við svo ágætan fýr.

Ég tek athugasemdum hans um að ég kunni að liggja óvígur eftir þessa „árás“ hans með léttum hug, enda alls óhræddur í þessu einvígi, verandi fagurbrynhosaður, prússneskur greifi með gljáfægða pistólu og eðalborið nafn, von Stein, í baráttu við einhvern pólskan almúgamann að nafni Petrowitsch, tötraklæddan með heygaffal. Ég tel drengskap minn óflekkaðan í þessu máli þar sem það var almúgamaður Petrowitsch sem dirfðist að sletta drullu á gullspengdan vagn minn, en ég af mildi minni gef honum færi á mér í einvígi til að hann gangi ekki æðrulaus misindismaður frá huglausu drullukastinu, heldur falli hann með einhvern snefil af reisn í svörðinn, deyjandi á hólminum.

Almúgamaður Petrowitsch uppástendur að tónlistarsafn hans sé „heilbrigðara áhlustunar“ en mitt, hvað sem það þýðir, og hefur uppi fjálglegar yfirlýsingar um hversu sérhæfður tónlistarsmekkur minn sé. Heldur þykir mér almúgamaður Petrowitsch taka djúpt í árinni þegar hann gefur í skyn að mesta stund leggi ég á marsatónlist og þjóðsöngva, þótt einhvern tíma hafi ég sagst hafa af slíku nokkurt gaman. Ég veit ekki betur en safn mitt innihaldi allt frá mestu miðaldapólýfóníu til algjörrar framúrstefnu og margt þar á milli. Almúgamaður Petrowitsch telur sig þess umkominn að lýsa sig þroskaðri hvað varðar klassískan tónlistarsmekk, og verður helst séð að hann telji það felast í fjölbreyttum smekk og umburðarlyndi. Gumar hann því af hugtakinu „lítil sérhæfing“ og telur þroskamerki.

Hér geigar þó heygaffall almúgamanns Petrowitsch allsvakalega, og kemur lagið þar sem hann síst varði; í eigin gump.

Ógurlegt umburðarlyndi almúgamanns Petrowitsch nær nefnilega ekki til að minnsta kosti einnar tónlistarstefnu, barokks. Í upphafi færslunnar gerist almúgamaður Petrowitsch svo vinsamlegur að sveipa hulunni af skefjalausum fordómum sínum og sýna hvern mann hann hefur að geyma. Almúgamaður Petrowitsch veltist um af hlátri yfir barokkáhuga annarra og telur slíka menn sitja sér skör neðar. Í raun er röksemdafærsla hans um guðhelgan þroska því fallin um sjálfa sig, vegna þess að almúgamaður Petrowitsch getur ekki unað öðrum mönnum þess að gerast áhugasamir um annað en yndi hans sjálfs; pólska alþýðutónlist. Þroski hans nær ekki lengra en það.

Almúgamaður Petrowitsch telur þroska fólginn í því að hlusta á sams konar tónlist og hann gerir sjálfur. Ekki sér hann út fyrir þann sjóndeildarhring sem hann hefur markað sér og hlær í sjálfumgleði að þeim sem utan hans standa. Almúgamaður Petrowitsch gengur þess dulinn að „de gustibus non est disputandum“, en ekki svo sem við hann að sakast, enda firrtur þeim eðlu fræðum sem slíkt boða, borinn og barnfæddur í margskiptu landi og hrjáðu.

Ég tel mig umburðarlyndan nokkuð gagnvart flestum tónlistarstefnum. Ég þykist hafa myndað mér víðan smekk, sérstaklega síðastliðin misseri, með því að gefa ýmiss konar tónlist gaum. Ekki ætla ég mér þá dul að halda að sérstök áhugasvið mín liggi æðra en áhugasvið annarra, nema stöku sinnum í grínaktugum og alvörulausum ummælum. Almúgamanni Petrowitsch er þó full alvara þegar hann reynir að níða skóinn af þeim sem interessera sig fyrir einhverju öðru en hann.

Gef ég því lítið fyrir „þroska“ almúgamanns Petrowitsch.