laugardagur, maí 17, 2003

Les disques

Fór í þann mammons bévaðan locum Smáralind áðan. Áður en ég treð yfir þröskuld í Smáralind (og á Hlemmi) hef ég fyrir sið að signa mig, framsegja þrjú paternoster, kyrja tvö credo og þylja fimm avemaríur svo fyrir Drottins náð og miskunn ég megi þaðan út koma lífi haldandi.

Nema hvað, ég fór í Skífuna og sá fyrir mér hið títaníska tónlistarúrval sem þar er; sjötíuþúsund eloquence-diska (þótt þeir séu að sjálfsögðu fátækum námsmanni allt annað en hatursefni) og u.þ.b. átta öðruvísi diska í „2 fyrir 2200“-tilboðinu. Triste, n'est-ce pas?

Ég kom auga á Tondichtungen-disk eftir þann arfagóða mann Richard Strauss sem mig langaði í og spurði afgreiðslumanninn hvort ekki væri hægt að fá „1 fyrir 1100“. Hann horfði á mig eins og ég hefði sagt að Grímur Thomsen væri höfundur Sapphóar-þýðingarinnar „Goða það líkast unun er“ og ég lét málið niður falla við neitun hans. Skellti Scheherazade eftir Rimsky-Korsakov með og borgaði mínar tuttuguogtvöhundruð krónur.

Úje

Innan mjög skamms fæ ég í hús gjörvallan Niflungahringinn á 7 DVD-diskum frá Deutsche Grammophon. Það verður rosalegt. Einu sinni var ég að Luft-stjórna völdum köflum úr Hringnum og braut reglustikuna mína sem þá var orðin tónsproti. Hvað verður núna?

Það lítur því út fyrir eitt húrrandi Wagner-fyllirí að prófum loknum, Wagner-tónleikar 22. og Niflungahringurinn og Niflungahringurinn og Niflungahringurinn. Og Niflungahringurinn.

Vorschlag

Praeterea censeo Turidurem Shlomonis filiam praesidentem Islandiae faciendam esse, ut supra.