mánudagur, júní 23, 2003

Aðdáendur

Ég er stundum að hugsa um hvað það er óréttlátt að dæma fólk af aðdáendum sínum. Hvers á Richard Wagner að gjalda fyrir að hafa eignast geðsjúkling sem aðdáanda nokkrum áratugum eftir dauða sinn? Hvers vegna þarf tónlist hans að líða fyrir upphafningu sem sinnisveikir menn veittu henni á nokkurra ára tímabili?

Ég fæ ekki séð að tónlist Wagners hafi gegnt stærra hlutverki í Þýskalandi á þessum árum en, til dæmis, melódían við Deutschland über alles. Nema síður sé. Ég þori að fullyrða að sá lagstúfur Haydns hafi verið brúkaður við mun fleiri nasísk tækifæri en tónlist Wagners. Og að sjálfsögðu ávallt beintengdur þjóðernissósíalískri heimsyfirráðahugmyndafræði.

Væri þá ekki ráð að banna Haydn? Það væri svo sem við hæfi, enda ótrúlega melankólísk og sorgleg tónlist sem liggur eftir þann mann. Eða ekki.

Ég sé þetta fyrir mér: „Já, neinei, við forðumst að spila svona þriðjaríkisáróður hér í Ísrael. Enda er það alveg deginum ljósara að í öllum sembalkonsertum sínum leggur Haydn blessun sína yfir helförina. Þá leggur brennslufnykinn af sinfóníunum hans, sérstaklega Parísarsinfóníunum. Og ég ætla nú ekki einu sinni að nefna strengjakvartettana, guð minn góður, eins gróflega antísemitískir og þeir eru.“