laugardagur, febrúar 14, 2004

Af guðlegum viðskiptum

Mikið óskaplega var gaman á árshátíðinni. Hún byrjaði skringilega en síðan fór landið sírísandi (beygingarmynd dagsins, einhver?) er á leið daginn. Þetta er með skemmtilegri vikum sem ég hef lifað í menntó, það verður bara að segjast.

Já, með því skemmtilegra sem ég hef gert í menntó hefur verið dagskrárgerð í útvarpi, í þriðja bekk og svo núna. Ágætt að ramma þessa braut inn með því.

Síðan steig ég upp á dansgólfið á Broadway í fyrsta sinn um dagana, þó ekki í sama tilgangi og flestir aðrir, það getum vér vottað. Ég fékk nefnilega þá hugmynd (í því ástandi er ég var) að áður en merlaði af morgni skyldi Kalli Bjarni idol sko fá að vita hvernig maður segði 'idol' á forngrísku. Það er 'eidolon' fyrir þau ykkar sem það vita ekki. Þannig að ég stóð fyrir framan sviðið í góðan hálftíma og starði á hann til að ná augnsambandi. Meðan á því stóð uppdiktaði ég ræðu sem átti að ná athygli hans. Hún hófst svo:

AFS (með útréttan handlegg og snýr lófa til himins, æpir í geðshræringu): Einn Grundfirðingur við annan! Snæfellingur! Leggðu hlustir við og hlýð á orð mín því ég boða þér mikinn sannleik!

Svo vildi hinn fagurbrynhosaði Atli mælt hafa við hið skírhvellandi eidolon. Þetta ætlaði ég að æpa að honum á milli laga, og þegar hann hefði beygt sig til mín, glaður yfir að hitta annan Skesshyrning, ætlaði ég að demba fróðleiknum yfir hann. Það sem kom þó í veg fyrir það var að milli laga stóðu nokkrir ágætismenn fyrir aftan mig og æptu „Grindavík, Grindavík, Grindavík!“ af lífs og sálar kröftum, drepandi fyrirætlun mína.

En í næsta lagi sá ég mér leik á borði. Hið háttkvaka eidolon hafði þann sið í alþekktum strófum í þeim óskunda sem það söng að rétta míkrófóninn út í almenninginn og skyldi sá sem fyrir valinu varð syngja þessa strófu í eidolons stað.

Maður sem var í eins metra fjarlægð frá mér varð fyrir valinu. Hann syngur, eidolon tekur við. Næsta erindi klárast, eidolon leitar að næsta lukkunnar pamfíl til að reka hljóðnemann framan í, og viti menn: Hið skírhvellandi eidolon og hinn fagurbrynhosaði Atli ná augnsambandi og áður en varir er undirritaður með hljóðnemann fyrir framan sig og heyrir í sjálfum sér öskrandi í hátalarakerfinu, strangely out of place með Jet Black Joe í bakgrunni:

Einn Grundfirðingur við annan! Snæfellingur!

Svo hófst hin fagurformaða ræða og svo lauk henni. Því eidolon, ei þekkjandi sitt nafn, kippti hljóðnemanum til baka með þóttasvip. Þannig lauk viðskiptum vorum og ég gekk niður af sviðinu.

Kalli Bjarni! Grundfirðingur, Snæfellingur! Ef þú ert að lesa þetta, þá útleggst 'idol' sem 'eidolon' á girsku máli! Ó að vindurinn beri orð mín eidolons til!