þriðjudagur, mars 23, 2004

Barna-Wagner: Teiknimyndir leita á ný svið

Segið svo að maður læri ekki eitthvað nýtt á bókasafninu. Til safnsins var um daginn keypt teiknimynd, sem væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema fyrir þá sök að hún heitir Tristan og Ísold.

Framan á henni er mynd af voðalega staðlaðri ljóshærðri prinsessu í bleikum kjól og hún horfist í augu við dökkhærðan riddara í lillabláum herklæðum. Þeim við hlið eru greinilega fyndnu sidekick hvors um sig, ljósálfur og fjólublár þvottabjörn. Í bakgrunninum er síðan bleikur ævintýrakastali.

Og það sem meira er: Þessi teiknimynd er orðin vinsælasta teiknimyndin á safninu. Hún er bókstaflega alltaf úti og hefur þar með rutt Barbie as Rapunzel úr sessi.

Einhvern næstu daga þegar ég hef tíma ætla ég að taka þessa teiknimynd og horfa á hana.