sunnudagur, maí 02, 2004

Heimildavinna og framtíðarsýn Jóns Ólafssonar

Við komumst að því í sögu í vetur að Jón Ólafsson, ævintýramaður par excellence, hefði flúið til Bandaríkjanna árið 1873 og komist þar í kynni við Ulysses Grant forseta. Jón hafði mikinn áhuga á Vesturheimsferðum Íslendinga og fór í leiðangur til Alaska að kanna svæðið með tilliti til landnáms, en Bandaríkjamenn keyptu það af Rússum árið 1867 fyrir kúk og kanil.

Jón skilaði skýrslu þar sem hann taldi Kodiak-eyju úti fyrir suðurströnd Alaska afar hentuga til stórfellds landnáms Íslendinga. Úr því varð þó aldrei. Þegar ég var að lesa undir sögupróf varð ég forvitinn um þessa Kodiak-eyju og leitaði mér upplýsinga um hana. Kemur þá í ljós að þetta er lítil, köld, harðbýl, vogskorin og afskekkt eyja sem var aðalbækistöð rússneskra sjómanna. Stærsti bærinn á eyjunni, Kodiak, var nánast rústir einar eftir mikinn jarðskjálfta og tsunami-flóðbylgju (!) sem skullu á honum árið 1792 og síðan aftur 1964. Á eyjunni eru mikil öskulög eftir eldgos sem þar varð 1912.

VORU ÍSLENDINGARNIR EKKI AÐ FLÝJA ÞETTA, JÓN ÓLAFSSON? HVAÐ VARSTU EIGINLEGA AÐ HUGSA?


Júrópopp

Ég dett alltaf úr karakter og fæ óstjórnlega mikinn áhuga á júrópoppi einu sinni á ári í kringum Eurovision. Það er svo gaman að heyra (og sjá) fólk gera sig að fífli. En það er líka gaman að þjóðlegu lögunum og málunum sem fólk syngur á.

Ég held með Andorra í ár því að þarlendir syngja á katalónsku.