laugardagur, apríl 23, 2005

Der Untergang

Wenck! General Wenck mit seiner Neunten Armee soll die Bolschewisten niederschlagen!

Þessi mynd er snilldin ein. Frábær leikur. Mér fannst ég aldrei vera að horfa á kvikmynd. Mér finnst þýskur leikur iðulega tilgerðarlegur, eins og íslenskur. Hef einlægt haldið að það lægi í tungumálinu, þó það sé erfitt að halda því fram að þýska sé vont leikmál, sem á mörg hundruð ára hefð í þeim efnum og Jón Ylfil Goethe.

Það breytir því ekki að mér finnst íslenska hræðilegt leikmál. Það er a) vondum leikurum að kenna, b) vondri leikritun eða c) blöndu af báðu og hefðarskorti einum miklum. Ég fæ alltaf kjánahroll þegar ég hlusta á íslenskan leikdíalóg. Sama hvað ég reyni, þá get ég ekki tekið íslenskan leik í sátt. Alltaf einhver rembingur eða óræður skortur á einhverju sem ég kann ekki að nefna. Af hverju geta íslenskir leikarar ekki verið eins og Scarlett Johansson; leikið eins áreynslulaust og þeir depla auga? Kannski liggur þetta í íslenskunni. Þá þarf að endurnýja skáldskaparmálið til að það henti leikhúsinu! Þetta gerði Shakespeare. Og Jón Ylfill.

En aftur að Der Untergang. Það er málhórdómur að auglýsa hana undir nafninu Downfall. Hold þeirra sem báðu um miða á Downfall í Regnboganum nú í kveld brann illa undan augum mínum. Ég meina, þetta helvítis tungumál þýska er ritað latínuletri og vel læsilegt! Hver er vandinn?

Ja, mein Führer, ich berate Ihnen sich gleichzeitig zu erschießen und das Gift zu nehmen.

Firringin var algjör og það kemst til skila. Góð mynd.