laugardagur, september 24, 2005

Holdið er veikt

Svanur segir að það þyki eðlilegt að lesa 1200 blaðsíður á viku í Hróðgeirsskóla. Ó ég vildi óska að ég hefði viljastyrk til að lesa 171 og hálfa blaðsíðu af prentmáli á dag.

Ég stunda það af vísindalegri nákvæmni að reikna alltaf út hversu lengi ég verð með eina bók. Ég les eina blaðsíðu með skeiðklukku og margfalda síðan sekúndurnar með blaðsíðutalinu og þykist þá hafa komist nærri lestímanum. Að sjálfsögðu er endanlegur lestími víðs fjarri og frekar mældur í dögum en klukkustundum.

Ég þarf alltaf að lesa lengi og íhuga hverja setningu til að hafa ánægju af því sem ég les. Ég get ekki rennt yfir blaðsíðu og haft gaman af henni. Jújú, ég næ meginatriðunum úr henni en las of hratt til að geta sogið í mig allt sem þar var eða var ekki. Þess vegna virðast mér 40 blaðsíður á klukkutíma nokkurn veginn sanngjarn mælikvarði miðað við þetta seinlæsi.

Ef ég gæti hlekkjað mig við lestur í fjóran og hálfan tíma á dag þá væri lífið svo miklu miklu sætligra.