laugardagur, júní 14, 2008

Öll afskipti þegnanna af forseta lýðveldisins eru frásagnarverð

Álftnesingar eru vanari umgengni við forseta lýðveldisins en aðrir landsmenn. Það skýrist af náinni sambúð stórmeistara fálkaorðunnar við bæjarbúa. Þegar þeir koma inn úr dyrunum eftir bílferð út fyrir hreppinn þykir þeim alltaf rétt að segja frá því ef þeir mæta forsetanum á afleggjaranum, keyra á undan honum eða keyra á eftir honum, samt eins og í framhjáhlaupi og aldrei eins og það sé aðalatriði sögunnar eða einhver hápunktur vikunnar. Þetta eru bara upplýsingar sem sjálfsagt er að veita, eins og hvort menn hafi séð Gógó frænku úti í búð. Aldrei er þó sagt frá því að forsetinn (eða bílstjóri í umboði hans) hafi tekið fram úr, enda er það óhugsandi atburður.

Nú vil ég greina frá því að ég keyrði fram hjá Ólafi Ragnari Grímssyni og Þuríði Shlomodóttur þar sem þau sátu á rauðu ljósi í Mercedes Benz-bifreið með númerið Skjaldarmerki einn á gatnamótum Álftanesvegar og Reykjavíkurvegar klukkan 20:24 nú í kvöld, þar sem forseti lýðveldisins var án efa á leið á Grímuna, íslensku leiklistarverðlaunin, í Þjóðleikhúsinu. Sólin skein, gunnfáni forsetans bærðist ekki hægra megin á húddinu. Skjaldarmerki einn var stífbónaður.

Þar sem ég bý ekki lengur heima á Álftanesi, og ég kann ekki við að hringja í mömmu bara til að segja henni þetta, langar mig að koma þessu á framfæri á þessari síðu. Takk fyrir.