föstudagur, september 26, 2008

Burt, burt, þú dýra orð!

Ágætu lesendur. Innan skamms stíg ég um borð í hljóðfráa þotu Iceland Express sem ber mig til Kaupmannahafnar, og þaðan ber mig hljóðfrárri þota Lufthansa (ísl. Loft-Hansasambandsins) til Stuttgart í Sambandslýðveldinu Þýskalandi. Þaðan mun ég svo fara með rútu, eða velta mér nakinn í dögginni, til háskólasmáborgarinnar Tübingen, sem hefur verið byggð germönskum þjóðflokkum, mestmegnis Alemönnum, frá því á 6. öld.

Þá liggur undir fótum mínum rómverska skattlandið Germania Superior, en í norðaustri liggur hin ótamda Germania Magna (þar sem fólk talar germönsk mál, drekkur bjór og trúir á Lúther), en í suðri og vestri Imperium Romanum (þar sem fólk talar rómönsk mál, drekkur rauðvín og er dónalegt við ferðamenn).

Þarna á bjór-rauðvíns-línunni við Svartaskóg, á limes Germanicus, milli SPQR og barbaríisins, mun ég búa í eitt ár við nám og störf.

Ég hef sagt upp störfum við Statsradíófóníuna, og mun því í vetur hvorki vekja athygli ykkar né annarra á því að nú sé unnt að festa kaup á smjöri með tuttugu og fimm prósentustiga afslætti, fá sér spray-tan með áður óþekktum hætti, eða að jólin séu komin. Fyrrverandi starfsmönnum stofnunarinnar er að sama skapi bent á að snúa sér annað til að tjá geðveilur sínar, til að mynda til bráðamóttöku geðdeildar Landspítalans, í síma 543 4050, þar sem akút þjónusta er veitt allan sólarhringinn. Það kemur í góðar þarfir þar sem dagskrá Rásar 1 spannar nú allan sólarhringinn og því kappnóg af grafalvarlegum álitamálum, stórum sem smáum, á hverri einustu útsendu mínútu sem má froðufella yfir.

Bara aldrei framar í mín eyru. Munið númerið: 543 4050.

Og hver er tilgangurinn með öllu þessu? Tilgangur minn með utanför þessari er nú á gamals aldri að ljúka BA-prófi í íslenskum fræðum sem ég hef slugsað við í bráðum hálfan áratug, leggja ákafa stund á germönsk fræði (þ. Germanistik) og verða betri maður. Í þessari röð.

Innifalið í atriði númer tvö er að ná fullkomnu valdi á þýsku. Og með fullkomnu á ég við algjöru, konsúmmat og perfekt. Ég á við að geta rætt við bifvélavirkja um bílaviðgerðir á slangurmáli unglingsdrengs. Ég á við að geta rætt við sendiherra um utanríkismál á máli Goethes með smá Schiller-slagsíðu. Einnig að geta skammað strætóbílstjóra með máli ellilífeyrisþega.

Fullnusta fyrsta atriðis verður eins og að komast loksins, loksins út úr öndergrándinu og sjá Big Ben. Akkúrat núna er ég óvart í Northern Line á leið til Totteridge & Whetstone og það er sveittur arabi með sprengju í sætinu við hliðina. Bara stoppað í Shittle Central vegna viðhalds á hinum stöðvunum.

En frá hinum fyrirheitna Big Ben er stutt á King's Cross, og þar gildir miðinn minn hvert á land sem er.